DNG vinnslubúnaður í sókn!

DNG heilfiskflokkari
DNG heilfiskflokkari

DNG vinnslubúnaður í sókn

„Við erum með breiða vörulínu og tökum að okkur mjög fjölbreytt verkefni, hvort heldur er fyrir vinnslu á fiski í landi eða á sjó. Á undanförnum árum höfum við styrkt okkur verulega og erum með öflugt teymi starfsmanna í framleiðslu búnaðar allt frá hönnunarstigi þar til búnaður er kominn upp og í notkun hjá viðskiptavinum,“ segir Magnús Blöndal Gunnarsson, sviðsstjóri DNG vinnslubúnaðar hjá Slippnum Akureyri ehf. Fyrirtækið er þekktast hér á landi sem eitt öflugasta skipaþjónustufyrirtæki landsins en á allra síðustu árum hefur það víkkað út sína þjónustu í sjávarútvegi, m.a. með smíði fiskvinnslubúnaðar undir merkinu DNG vinnslubúnaður.

Byggt á sterku vörumerki
Framleiðsla á hinum heimsþekktu DNG færavindum er hluti af starfsemi Slippsins Akureyri og segir Magnús að það hafi legið beint við að nýta þetta þekkta vörumerki sem samheiti fyrir smíði vinnslubúnaðar Slippsins. Í heild starfa í dag um 50 manns hjá Slippnum Akureyri í hönnun og framleiðslu vinnslubúnaðar en liður í uppbyggingu þessa þjónustusviðs voru kaup á húsnæði, framleiðslutækjum og vörulínu Martaks í Grindavík sem sérhæfði sig í slíkri framleiðslu. Starfsmenn Martaks á þessu sviði færðust með þeim kaupum yfir til Slippsins og síðan þá hefur bæði hönnun og framleiðsla vinnslubúnaðar verið á Akureyri og í Grindavík.

„Í kjölfar jarðhræringanna í Grindavík færðist hluti starfsmannahópsins hingað norður til Akureyrar en við stefnum eindregið á að hefja starfsemi á nýjan leik í Grindavík þegar það verður óhætt,“ segir Magnús.

Búnaður fyrir allt fiskvinnslusviðið
Aðspurður segir Magnús að verkefnasvið DNG vinnslubúnaðar sé vítt og nái yfir matvælavinnslu bæði á landi og á sjó.

„Við erum með mjög breiða vöruflóru. Á árum áður lögðum við mesta áherslu á smíði vinnslubúnaðar í skip en eftir að við fjárfestum í húsakosti, hönnun, tækniþekkingu og mannaforða í Grindavík þá erum við líka sterkir framleiðendur búnaðar- og tæknilausna fyrir landvinnslu,“ segir Magnús en verkefnin sem DNG vinnslubúnaður kemur að eru mjög fjölbreytt. Nefna má flokkara, karakerfi, blæði- og kælilausnir, lestarkerfi, og heildarlausnir í vinnslukerfum fyrir bæði sjó- og landvinnslur.

„Við höfum einnig í mörg ár verið í góðu samstarfi við Vaka fiskeldiskerfi í smíði á lausnum fyrir fiskeldisfyrirtæki. Nýlega afhentum við heilfiskflokkara fyrir vinnslu í Sandgerði þar sem við þróuðum líka framleiðsluhugbúnað sem var stór áfangi fyrir félagið. Forritun og hugbúnaðarþróun eru mjög vaxandi svið hjá okkur enda er það forsenda fyrir því að við getum þróað betri lausnir fyrir viðskiptavini okkar.

Þessu til viðbótar get ég nefnt nýlegt hrognavinnslukerfi sem við afhentum í Litháen og undir lok síðasta árs afhentum við heildarlausn í kanadískan frystitogara. Af þessu má sjá að fjölbreytnin í okkar verkefnum er mjög mikil,“ segir Magnús.

Áherslur í hönnun sem skila viðskiptavinum ávinningi
Magnús segir algengt að viðskiptavinir leiti til fyrirtækisins með óskir sínar sem síðan eru útfærðar af hönnuðum þess og loks framleiddar þegar markmiðum viðskiptavina hefur verið náð.

„Áherslur okkar í smíði búnaðar snúast að stærstum hluta um þrjá megin þætti, þ.e. að auka afköst fyrir viðskiptavini, ná fram auknum gæðum afurða og auka nýtingu hráefnis. Síðan horfum við til annarra mikilvægra þátta eins og aðgengis varðandi þrif og þjónustu búnaðarins og fleira slíkt. Í hverju einasta verkefni er það okkar markmið að ná þessum áherslum fram í þágu okkar viðskiptavina, hanna góðar lausnir, vanda til smíðinnar og ljúka verkefnunum hratt og vel,“ segir Magnús. Hann segir mikilvægt að bjóða þjónustu DNG vinnslubúnaðar bæði norðan og sunnan heiða. Þannig geti fleiri viðskiptavinir haft bein samskipti við starfsmenn fyrirtækisins á sínum nærsvæðum.

„Nálægðin við viðskiptavini skiptir máli þar sem við leggjum mikið upp úr þróunarstarfi og við erum með starfsmenn sem eingöngu vinna að vöruþróun og prófunum á nýjum vinnslulausnum. Þetta tel ég vera mjög mikilvægan þátt í því að byggja upp framleiðslu DNG vinnslubúnaðar,“ segir Magnús.

Eftirspurnin hraðvaxandi að undanförnu
Í starfsemi DNG vinnslubúnaðar segir Magnús ekki horft til afmarkaðra sviða fiskvinnslu heldur er þjónustunni beint að fiskvinnslu í víðum skilningi sem matvælaframleiðslugreinar.

„Við höfum mikla reynslu í hvítfiskinum en höfum líka komið að verkefnum í uppsjávarvinnslu, svo dæmi sé tekið. Við sjáum vöxt og tækifæri á fiskeldissviðinu á komandi árum og erum þegar með verkefni þar, líkt og ég nefndi áður. Á þann hátt má segja að allt vinnslusviðið á fiski sé undir,“ segir Magnús og bætir við að það sama eigi við um markaðina. Bæði sé horft til innlendra fiskframleiðenda sem erlendra.

„Eftir að vöruflóra okkar stækkaði þá er einfaldlega mikil aukning í eftirspurn frá viðskiptavinum, bæði hérlendis og erlendis.

Mikil tækifæri erlendis
Magnús segir að eðlilega sé mikil samkeppni á þessum markaði og henni beri að fagna.

„Samkeppni er bara af hinu góða, bæði hér heima og erlendis. Slippurinn Akureyri er mjög þekkt fyrirtæki hér á landi og við njótum orðspors þess en síðan höfum við í auknum mæli lagt áherslu á kynningu erlendis, höfum sótt sýningar reglubundið og þannig aukið bein tengsl við nýja viðskiptavini. Við höfum til dæmis verið á sýningum í Skotlandi, á Írlandi og á sjávarútvegssýningunni í Barcelona í fyrra og þar verðum við aftur í ár. Þessu til viðbótar erum við með samstarfsaðila í nágrannalöndunum sem vinna með okkur í að afla nýrra viðskiptasambanda. Allt hjálpast þetta að og svo er hvert nýtt verkefni ákveðin kynning á því hvað við getum gert. Búnaðurinn auglýsir sig og sín gæði á þann hátt sjálfur,“ segir Magnús Blöndal Gunnarsson.

 

Viðtalið birtist í nýjast tölublaði Ægis - sérrit um sjávarútveg.