Kristján Björn Garðarsson, rekstrarstjóri DNG dótturfélags Slippsins á Akureyri, segir alltaf mikið um að vera á þessum árstíma enda margir að undirbúa sumarvertíðina og ekki síst hefja strandveiðar. Fyrirtækið framleiðir færavindur og margskonar rafeinda- og tæknibúnað. „Þetta er líka ákveðinn hápunktur í viðgerðum, menn að gera sig tilbúna fyrir sumarvertíð. Þegar kemur að vindunum er þetta býsna svipað og síðastliðin ár, kannski eilítið líðlegra á þessum tíma. Þegar strandveiðarnar eru að byrja og svo makríllinn í kjölfarið, það koma miklir toppar í þetta.“

Hann segir að þó það hafi ávallt verið gert ráð fyrir að yrði af vertíðinni þá hafi komið aðeins á óvart að tímabilið hafi gefið jafn mörg verkefni og raun ber vitni þar sem virðist hafa hægt á víða og að verð á fiskmörkuðum er heldur lágt. „Við höfum ekki tekið eftir samdrætti í þessu miðað við þennan árstíma.“ Kristján treystir sér ekki til þess að giska á hversu margir bátar nýta þjónustu DNG á ári. Spurður hvort um sé að ræða nokkra tugi báta svarar hann: „Nei, það eru miklu fleiri, þetta er standandi. Það er sumir sem koma á haustin og á veturnar þegar þeir eru ekki í útgerð og aðrir sem koma í aðdraganda vertíðarinnar og skella þeim til okkar í yfirhalningu og eftirlit eða viðgerðir. Þetta er gríðarlegur fjöldi hérna á Íslandi, það eru mörg hundruð vindur sem eru í gangi og ekki allt bundið við strandveiðar.“

DNG þjónustar ekki bara íslenskan markað og hefur staðið í talsverðri sölu og þjónustu við útgerðaraðila víða um heim, að sögn Kristjáns. „Þetta eru Norðmenn, Írar, Skotar, Færeyjingar mikið og Grænlendingar. Nýfundnaland, báðar strendur Bandaríkjanna að hluta. Þetta er um allt, einu sinni var Alaska markaðssvæði og svo er þetta um hvippinn og hvappinn. Við erum alveg niður í Nýja Sjálandi og Ástralíu.“

Fréttin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 23 maí.