Slippurinn Akureyri hlaut nýverið styrk frá rannsóknarsjóði AVS út á verkefnið Sjávarlón. Um er að ræða tveggja ára verkefni þar sem ætlunin er að þróa búnað sem auka á gæði og einsleitni hráefnis úr blæðingar- og þvottaferli bolfisks. Markmiðið er að ferlinu sé stýrt með tilliti til ytri aðstæðna og lágmarki þá bæði holdroða og los. Í verkefninu er þróaður hug- og vélbúnaður til að besta blæðingu bolfisks út frá hitastigi, tíma og flæðibreytum. Verkefnið er samstarfsverkefni Slippsins, Matís, Háskólans á Akureyri og Samherja.


Ásþór Sigurgeirsson sem starfar við hönnun og þróun hjá Slippnum Akureyri segir að fiskimiðin í Norður Atlantshafinu séu einhver þau gjöfulustu í heimi en þau séu jafnframt vígvöllur heitra og kaldra hafstrauma.


„Það eru miklar breytingar að verða í vinnslubúnaði fiskiskipa og okkur þykir full ástæða til að taka þær miklu árstíða- og svæðisbundnu hitastigsbreytur sem eru á Íslandsmiðum á ársgrundvelli inn í vinnsluferlana. Íslenskir fiskverkendur eru að senda fullunnar ferskar afurðir úr landi allan ársins hring og við viljum leggja okkar af mörkum til að tryggja sem jöfnust gæði allt árið um kring. Með Sjávarlóni ætlum við okkur að koma böndum á þessar öfgar inni á vinnsluþilfarinu og láta ekki breytilegt sjávarhitastig í þvotti koma niður á gæðum. Markmiðið með stýrðum aðstæðum er að skila nær jafngóðu hráefni allt árið um kring hvort heldur sem fiskur er veiddur og unninn í ísköldum sjó eða í hlýjum sjó þegar sókninni er beint þangað“.


Hann segir að nálægðin við útibú Matís og Háskólann á Akureyri ásamt útgerðum á svæðinu auki aðgengi fyrirtækja úti á landi að góðum samstarfsaðilum.


„Þannig má segja að sérfræðingar Matís, Háskólans á Akureyri auk gæðastarfsfólks Samherja beri verkefnið uppi með okkur“.