Slippurinn á Akureyri hefur sett upp sjálfvirkt þvottakerfi hjá Arnarlaxi á Bíldudal sem dregur verulega úr kostnaði vegna þrifa. Fyrir dyrum stendur að setja upp samskonar kerfi í nýrri landvinnslu Samherja á Dalvík.

Magnús Blöndal, markaðsstjóri hjá Slippnum, segir að fram hafi komið á fundum fyrirtækisins með fiskvinnslufyrirtækjum um allt land að þrifakostnaður væri allverulegur. Í framhaldinu leitaði Slippurinn lausna og fann hana í þvottakerfum frá sænska framleiðandanum Lagafors. Slippurinn er þjónustuaðili Lagafors og annast uppsetningu búnaðarins, lagnavinnu og viðhald.

„Það er miklar kröfur um gæði, vinnsluhraða og rekjanleika í fiskvinnslum hér á Íslandi og hefur þróunin á vinnslubúnaði verið mikil á undaförnum árum. Sjálfvirkt þvottakerfi sparar vinnutíma, minnkar notkun á hreinsiefnum og er hægt að tengja við rekjanleikakerfi svo eftirlitið með þrifunum verður meira,“ segir Magnús.
Samlegðaráhrif

„Næsta verkefni hjá okkur er að setja upp þvottakerfi fyrir öll færibönd í nýju fiskvinnslu Samherja á Dalvík og eru þau yfir 200 talsins. Það er skolun á meðan vinnslan er í gangi, lágþrýstiþvottur á 40 börum, sápuþvottur og sótthreinsun og verður þvottakerfið eitt það stærsta og fullkomnasta sem hefur verið sett í bolfiskvinnslu í heiminum” segir Magnús.
Arnarlax hefur verið með þvottakerfið í tvo mánuði og er reynslan góð. Fyrirtækið er að stækka vinnslu sína og hyggst setja þvottakerfið á öll færibönd í nýju vinnslunni.
Gjörbreytti þrifunum

„Þetta gjörbreytti þrifunum hjá okkur. Við erum að vinna á bilinu 80-95 tonn af fiski á dag. Yfir daginn hef ég vatn á kerfinu til að viðhalda léttri skolun á færiböndunum. Strax þegar vinnslu lýkur keyri ég 40 bara skolun og við það fara öll óhreinindi af færiböndunum. Í framhaldinu sér kerfið um sápuþvott. Þegar sápa hefur farið á öll böndin líða fimmtán mínútur áður en skolun hefst. Ég get sjálfur stillt þann tíma sem sápan liggur á færiböndunum. Kerfið spúlar svo sápunni af með 40 bara þrýstingi og í lokin sótthreinsar kerfið færiböndin með þar til gerðum efnum,“ segir Jón Ragnar Gunnarsson, tæknistjóri hjá Arnarlaxi.

Mannshöndin kemur þannig hvergi nálægt þessum þrifum en starfsmenn Arnarlax annast þrif á gólfum og sótthreinsa tæki. Hægt er að stýra því hve langan tíma hvert ferli í þrifunum tekur. Þannig má til dæmis lengja lágþrýstiþvottinn á færiböndunum séu þau óþrifalegri en vant er.
„Kerfið sparar okkur þrifatíma sem samsvarar einum starfsmanni. Áður vann einn starfsmaður eingöngu við það að smúla öll færiböndin í vinnslunni. Þetta sparar okkur launakostnað auk þess hefur sápunotkun í húsinu minnkað um að minnsta 10-15 prósent. Hjá Slippnum á Akureyri starfa miklir fagmenn, jafnt í allri uppsetningu og öllu sem þessu kerfi viðkemur,“ segir Jón Ragnar.

Hann segir að nú sé stefnan hjá fyrirtækinu að lengja vinnudaginn í 15-16 tíma á dag í stað 12 tíma áður. Afköstin fari í hátt í 140 tonn á dag. Þetta dragi mikið úr þeim tíma sem eftir er sólarhrings til þrifa. Nýja þvottakerfið geri þrif á færiböndum sjálfvirk og á meðan geta starfsmenn einbeitt sér að þrifum á gólfum og tækjum.
„Þessi auknu umsvif kalla á fleiri þvottakerfi og við höfum þegar lagt inn pöntun fyrir nýju kerfi, “segir Jón Ragnar.
Fréttin birtist fyrst í fiskifréttum 23 september.