Samherji semur við Slippinn á Akureyri um vinnsludekk í Kaldbak EA 1 og Björgúlf EA 312

Samningar hafa verið undirritaðir milli Samherja og Slippsins Akureyri um ný vinnsludekk í
ísfisktogaranna Kaldbak EA og Björgúlf EA. Áætlað að Slippurinn klári uppsetningu á vinnsludekkinu í
Kaldbak síðla sumars og svo uppsetningu í Björgúlf snemma á næsta ári. Á síðasta ári afhenti
Slippurinn vinnsludekk í Björg EA sem er systurskip Kaldbaks og Björgúlfs.

„Vinnsludekkið í Björgu EA hefur komið vel út á þessu fyrsta ári og hefur aflameðferðin verið fyrsta
flokks og ekki að ástæðulausu að fiskurinn úr Björgu er sá besti sem hefur verið í unninn í fiskvinnslu
Útgerðarfélags Akureyrar. Þjónustan og eftirfylgni Slippsins með vinnsludekkinu í Björgu hefur verið
til fyrirmyndar og lítið um vandamál frá því að skipið fór í sína fyrstu veiðiferð. Það lá því beinast við
að semja aftur við Slippinn um hönnun, smíði og uppsetningu á Kaldbak EA 1 og Björgúlf EA 312,“
segir Hjörvar Kristjánsson, verkefnisstjóri nýsmíða hjá Samherja.

Í skipunum verða bæði kæli og blóðgunarsniglar frá norska fyrirtækinu Stranda sem Slippurinn er í
samstarfi með en einnig verða lyftur frá fyrirtækinu Holmek. Slippurinn hannar lausn svo að fiskurinn
verði settur í kör uppi á vinnsludekkinu og fer svo niður í lest með lyftum frá Holmek, sú lausn verður
einnig sett í Björgu EA.

„Við viljum bjóða viðskiptavinum okkur upp á bestu og þekkustu lausnirnar hverju sinni. Það var því
ákveðið í sameiningu með Samherja að kaupa snigla frá Stranda og lyftur frá Holmek“. Við þekkjum
þessi fyrirtæki vel og erum að vinna með þeim í öðrum verkefnum“ segir Ágúst Guðnason
yfirhönnuður hjá Slippnum á Akureyri.

Við hönnun á vinnsludekkjunum í Kaldbak og Björgúlf var nýtt það góða úr Björgu sem snýr að
aðgengi að þrifum, gönguleiðum, aðgerðarastöðunni og aflameðferðinni.

„Slippurinn og Samherji lögðu áherslu á að hafa vinnsludekkin einföld og skilvirk, það skilar sér í betri
og öruggari aflameðferð og minnkar áhættuna á miklu viðhaldi sem skiptir bæði okkur og Samherja
miklu máli,“ segir Ágúst.

Slippurinn Akureyri annast framleiðslu og uppsetningu á vinnsludekki í nýjan frystitogara Nergård Havfiske

Slippurinn Akureyri hefur gengið frá samningi um hönnun, framleiðslu og uppsetningu
á vinnsludekki um borð í nýjan frystitogara norsku útgerðarinnar Nergård Havfiske.
Norska skipasmíðastöðin Vard sér um smíði á skipinu og mun Slippurinn hafa
yfirumsjón með vinnsludekkinu og býður upp á heildarlausn ásamt undirvertökum
eins og Intech, Marel, Baader og Holmek.

„Samningurinn við Nergård Havfiske er stærsti einstaki samningurinn sem Slippurinn
hefur gert sem snýr að vinnsludekki eins fiskiskips og er mikil viðurkenning fyrir okkur
á allan hátt. Við höfum verið í mikilli sókn á markaði fyrir vinnslubúnað í fiskiskip og
landvinnslur á undanförnum árum og erum við mjög ánægð með að Nergård hafi
valið okkur í þetta verkefni“ segir Eiríkur S. Jóhannsson framkvæmdarstjóri Slippsins
á Akureyri.

Skipið er 80 metrar að lengd og 17 metrar að breidd og mun vinnsludekkið vera með
vinnslulínu fyrir bæði bolfisk og rækju. Áætlað er að hið nýja fiskiskip verði tilbúið til
veiða í febrúar á næsta ári.

Á undaförnum fimm árum hefur Slippurinn afhent sex millidekk í frystitogara, flest
þessara verkefna eru unnin með félögum tengdum Samherja. Sú mikla þekking sem
Samherji býr yfir við fiskveiðar og vinnslu hefur stórelft allar lausnir sem Slippurinn
býður nú uppá og hafa þessar lausnir vakið mikla eftirtekt í alþjóðlegum sjávarútvegi.
Í þessu sambandi nægir að nefna að árið 2017 afhenti Slippurinn vinnsludekk í
frystitogaranna Berlin NC 105 og Cuxhaven NC 100 fyrir Deutsche Fischfang Union
og hefur reynsla útgerðarinnar af þessum millidekkjum verið sérstaklega góð.

Einnig má nefna að Slippurinn hefur einnig tekið að sér framleiðslu og umsjón á
milldekkjum fyrir ísfisktogara. Slippurinn tók að sér umsjón með heildarlausn á
vinnsludekki í ísfisktogarann Björg EA 7 fyrir Samherja í fyrra og hefur aflinn og
aflameðferðin í skipinu verið fyrsta flokks.

„Þau verkefni sem við höfum verið að vinna að á undaförnum árum hafa komið
gríðarlega vel út. Við höfum þróað okkar búnað og lagt meiri áherslu en áður að
bjóða upp á heildarlausnir til okkar viðskiptavina. Þessi samningur við Nergård og
Vard er því góður vitnisburður um þá jákvæðu þróun sem hér hefur átt sér stað og
klár gæðastimpill fyrir Slippinn og okkar góða starfsfólk“ segir Eiríkur í viðtali við
heimasíðuna.