Naustatangi 2 (+354) 460 2900 info@slipp.is

Tveimur stórum verkefnum nýlokið í Slippnum Akureyri

 

Seint í desember kom frystitogarinn Blængur NK125 sem er í eigu Síldarvinnslunnar til viðhalds Í
Slippnum. Meðal verkefna í þessu stoppi var almálning á skipinu, þ.e.a.s. málning á yfirbyggingu,
þilförum, síðum og botni. Veltitankur var smíðaður á skipið og var hann settur upp ásamt tengingum
og tilheyrandi stjórnbúnaði. Afgasketill var hreinsaður, ýmis innréttingarvinna í matsal og
vistarverum skipverja var framkvæmd auk þess sem búnaður á vinnsluþilfari var yfirfarinn og önnurhefðbundin viðhaldsverkefni kláruð.

Að sögn Ólafs Ormssonar sviðsstjóra skipaþjónustu Slippsins gekk verkefnið vel í alla staði og eiga
starfsmenn Slippsins hrós skilið fyrir gott starf. Það er augljóst að vilji útgerðarinnar er að halda
skipinu vel við, sést það best á útliti og ástandi búnaðar skipsins.

Grænlenska línuskipið Masilik sem er í eigu Royal Greeland er farið á veiðar eftir að hafa verið í slipp
allan janúar mánuð. Í skipinu var unnið við endurbætur á klæðningum á vinnsludekki og það
heilmálað. Skipið var jafnframt öxuldregið, unnið að ýmsum viðhaldsverkum í vélarrúmi auk þess
sem akkerishús var lagfært eftir að skipið fékk á sig brot fyrir skemmstu.

„Björg EA 7 er komin til okkar og verður hjá okkur fram í miðjan mars mánuð í reglubundnu viðhaldi
auk þess sem nýr lestarbúnaður frá Slippnum verður settur í skipið. Grænlenski togarinn
Angunnguaq II kemur í næstu viku en Slippurinn sér um að setja nýja aðalvél í skipið, endurnýja gír
og margskonar vélbúnað í vélarrúmi skipsins. Verkefnastaðan er góð hjá okkur eins og er en þó er
svigrúm til að bæta við verkefnum” segir Ólafur Ormsson í spjalli við heimasíðuna.

Aðgengi breytt

Ágætu viðskiptavinir, 

Nú hefur aðgengi að athafnarsvæði okkur verið takmarkað vegna almenns öryggis á svæðinu sem og sóttvarna. Er þetta gert fyrir okkur starfsmenn sem og ykkur viðskiptavini Slippsins Akureyri. Vegna þessa viljum við biðja alla tilfallandi gesti að skrá sig inn í spjaldtölvu í anddyri aðalinngangs. 

Við skráningu ber gesti að skrá hvern hann ætlar að hitta. Þegar viðkomandi gestur hefur skráð sig inn fær sá starfsmaður sem skráður er fyrir heimsókninni skilaboð um að gesturinn sé mættur. Eigi starfsmaður von á gestinum kemur hann og tekur á móti honum í anddyri. Hafi gesturinn ekki mælt sér mót við starfsmanninn fyrirfram, mun starfsmaður láta vita ef hann getur ekki tekið á móti honum. ​

Starfsemin helst að öðru leyti að mestu óbreytt og hægt er að ná í starfsmenn okkar símleiðis eða með tölvupósti. Sjá nánar á www.slipp.is

 

Þökkum fyrir sýndan skilning.

 

Harðbakur EA fer vel af stað

Harðbakur EA 3 nýi togari Útgerðarfélags Akureyringa hefur komið vel út en skipið fór í sína fyrstu veiðiferð um miðjan maí og landaði fullfermi í fiskvinnslu félagsins. Slippurinn Akureyri annaðist hönnun, smíði og uppsetningu á nýju vinnsludekki í skipinu.

„Helstu áherslurnar voru að hámarka gæði og meðferð afla og var það margþætt verkefni. Blæðing, þvottur og kæling á fiski voru lykilatriði í ferlinu en einnig var lögð áhersla á að hafa vinnsludekkið einfalt og skilvirkt. Þær nýjungar sem snúa að vinnslubúnaði í skipinu voru meðal annars reimalyftukör sem er ný og einfaldari útfærsla á lyftukörum og fiskilyfta sem var sett til þess að lágmarka fallhæð frá vinnsludekkinu og niður í lest. Hönnun á vinnsludekkinu var unnin í góðu samstarfi við útgerðarsvið Samherja og eru báðir aðilar ánægðir með afraksturinn“ segir Bergþór Ævarsson sviðsstjóri framleiðslu hjá Slippnum Akureyri í viðtali við heimasíðuna.

Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri Samherja er ánægður með vinnsludekkið í Harðbak.

„Hráefnisgæði af nýja millidekkinu eru eins og best verður á kosið. Við hönnunina var notast við nýjar lausnir í bland við aðrar þekktar lausnir úr fyrri verkefnum. Það er ljóst að vel tókst til. Samstarfið við Slippinn Akureyri gekk vel og hefur þjónusta og eftirfylgni verið til fyrirmyndar“.

Slippurinn Akureyri hlýtur styrk frá rannsóknarsjóði AVS

Slippurinn Akureyri hlaut nýverið styrk frá rannsóknarsjóði AVS út á verkefnið Sjávarlón. Um er að ræða tveggja ára verkefni þar sem ætlunin er að þróa búnað sem auka á gæði og einsleitni hráefnis úr blæðingar- og þvottaferli bolfisks. Markmiðið er að ferlinu sé stýrt með tilliti til ytri aðstæðna og lágmarki þá bæði holdroða og los. Í verkefninu er þróaður hug- og vélbúnaður til að besta blæðingu bolfisks út frá hitastigi, tíma og flæðibreytum. Verkefnið er samstarfsverkefni Slippsins, Matís, Háskólans á Akureyri og Samherja.


Ásþór Sigurgeirsson sem starfar við hönnun og þróun hjá Slippnum Akureyri segir að fiskimiðin í Norður Atlantshafinu séu einhver þau gjöfulustu í heimi en þau séu jafnframt vígvöllur heitra og kaldra hafstrauma.


„Það eru miklar breytingar að verða í vinnslubúnaði fiskiskipa og okkur þykir full ástæða til að taka þær miklu árstíða- og svæðisbundnu hitastigsbreytur sem eru á Íslandsmiðum á ársgrundvelli inn í vinnsluferlana. Íslenskir fiskverkendur eru að senda fullunnar ferskar afurðir úr landi allan ársins hring og við viljum leggja okkar af mörkum til að tryggja sem jöfnust gæði allt árið um kring. Með Sjávarlóni ætlum við okkur að koma böndum á þessar öfgar inni á vinnsluþilfarinu og láta ekki breytilegt sjávarhitastig í þvotti koma niður á gæðum. Markmiðið með stýrðum aðstæðum er að skila nær jafngóðu hráefni allt árið um kring hvort heldur sem fiskur er veiddur og unninn í ísköldum sjó eða í hlýjum sjó þegar sókninni er beint þangað“.


Hann segir að nálægðin við útibú Matís og Háskólann á Akureyri ásamt útgerðum á svæðinu auki aðgengi fyrirtækja úti á landi að góðum samstarfsaðilum.


„Þannig má segja að sérfræðingar Matís, Háskólans á Akureyri auk gæðastarfsfólks Samherja beri verkefnið uppi með okkur“.