Það er líflegt á athafnasvæði Slippsins Akureyri

Verkefnastaða Slippsins Akureyri hefur verið góð undafarna mánuði og útséð að hún haldist þannig út árið. Auk Frosta ÞH sem Slippurinn annast nú m.a. endurnýjun vinnslubúnaðar skipsins, þá eru frystitogarnir Arnar HU og Hrafn Sveinbjarnarson GK við viðlegukantinn en útgerðirnar Fisk Seafood og Þorbjörn gera skipin út.

Í Arnari HU var skipt um allar legur í togspili, skipið heilmálað og öxuldregið, upptekt á skrúfuhaus ásamt breytingum og smíði á nýjum búnaði fyrir vinnsludekkið. Kælismiðjan Frost hefur einnig unnið við breytingar á frystikerfinu í skipinu og aðstoðaði Slippurinn við að koma eldri búnaði frá borði og smíða undirstöður fyrir nýjan búnað.

Hrafn Sveinbjarnarson kom í Slippinn fyrir rúmum tveimur vikum síðan en til stendur að aðstoða Kælismiðjuna Frost við niðurrif á frystikerfinu í skipinu, smíða nýtt frystivélarrými, mála vinnsludekkið í skipinu ásamt öðrum minniháttar viðhaldsverkefnum.

Uppsjávarskipið Sighvatur Bjarnason VE sem er í eigu Vinnslustöðvarinnar er í dráttarbrautinni þar sem ætlunin er að gera skipið klárt fyrir komandi loðnuvertíð.

Sveinbjörn Pálsson nýráðinn sviðsstjóri skipaþjónustu Slippsins Akureyri er ánægður með stöðu mála þessar vikurnar.

„Verkefnastaðan er góð en sökum stærðar okkar við höfum þó yfirleitt tök á því að bæta við okkur verkefnum, komi upp þannig aðstæður. Við erum byrjaðir að fá inn bókanir fyrir næsta ár enda erum við að upplifa að afhendingartími á öllum aðföngum er mun lengri áður og því er mjög mikilvægt að skipuleggja verkefnin vel og huga snemma að viðhaldsmálum komandi mánaða. Við hjá Slippnum höfum verið að undirbúa okkur fyrir að geta þjónustað viðskiptavini okkar sem best, bæði með aukinni verkþekkingu sem og útvegun aðfanga í gegnum tengslanet okkar innanlands sem og erlendis. Útgerðir uppsjávarskipa eru nú í óða önn að undirbúa stóra loðnuvertíð og erum við nú að aðstoða útgerðirnar við undirbúning skipa fyrir hana. Þetta er gríðarleg lyftistöng fyrir útgerðina sem og alla þá sem starfa við að þjónusta sjávarútveginn“ segir Sveinbjörn.

Í framleiðsludeild Slippsins er áfram unnið að nýsmíði í Frosta ÞH en einnig er unnið að ráðgjöf og smíði búnaðar fyrir innlenda aðila sem og erlenda sem vonandi verður hægt að segja frá seinna.

Slippurinn Akureyri endurnýjar vinnslubúnað í Frosta

Slippurinn Akureyri ehf og Frosti ehf hafa gert með sér samkomulag þar sem Slippurinn mun bera ábyrgð á hönnun, smíði og uppsetningu á nýjum vinnslubúnaði í ísfisktogarann Frosta ÞH 229. Áætlað er að uppsetning á búnaðinum muni hefjast í október.

„Nýji búnaðurinn mun tryggja góð og jöfn gæði þar sem áhersla er lögð á góða blæðingu og þvott á fiski ásamt háu rekstraröryggi. Við notum besta búnað sem völ er á“ segir Páll Kristjánsson sviðsstjóri framleiðslusviðs hjá Slippnum.

Samhliða breytingum á vinnsludekkinu verður þilfarið vatnsblásið, einangrun endurnýjuð og gólf klædd slitsterku efni. Skipið verður jafnframt málað ásamt því sem öðru hefðbundnu viðhaldi verður sinnt.

„Þetta verkefni er gott dæmi um styrkleika Slippsins Akureyri þar sem við önnumst breytingar á vinnsludekki ásamt öðrum þjónustuverkum samtímis “ segir Páll.

Sigurgeir Harðarson vélstjóri og einn eiganda Frosta ehf segist spenntur fyrir komandi breytingum.

„Hönnunarferlið fyrir vinnsludekkið hefur gengið vel og erum við mjög ánægðir með útkomuna. Við höfum alltaf lagt áherslu á að stunda ábyrgar veiðar og hámarka verðmæti aflans og á því verður engin breyting“ segir Sigurgeir í spjalli við heimasíðuna.

 

Straumur skipa í Slippinn Akureyri

„Uppsjávarskipin eru okkar ljúfi vorboði“

Töluverð umferð skipa hefur verið til okkar í Slippnum Akureyri undanfarin misseri. Snemma í síðasta mánuði voru sjö skip af öllum stærðum og gerðum samtímis hjá Slippum í ýmiskonar þjónustu.

Uppsjávarskipið Jóna Eðvalds SF frá Hornafirði var í slipp í tæpar þrjár vikur þar sem skipið var heilmálað, hliðarskrúfa tekin upp, skipið öxuldregið og viðgerðir framkvæmdar á stýrisbúnaði.

Uppsjávarskip eru algeng sjón í Slippnum snemmsumars. Eftir loðnuvertíð og í mörgum tilvikum nokkra vikna kolmunnaúthald, eru vikurnar fram að makrílvertíð nýttar til viðhalds og endurbóta. Þessi tími er því oft fjörlegur hér í Slippnum og nauðsynlegt að nýta tímann til hins ítrasta. Í kjölfar Jónu Eðvalds komu svo Sigurður VE auk Bjarna Ólafssonar AK og er nú verið að vinna í báðum þessum skipum. Í kjölfar sjómannadagsins fara uppsjávarskipin svo að streyma eitt af öðru til makrílveiða.

Plötuskipti og heilmáling fóru fram á dýpkunarskipinu Pétri Mikla og gröfuprammanum Reyni sem eru í eigu Björgunar ehf. Viðgerðir voru unnar á skrúfu og stýrisbúnaði á Nøtte sem er þjónustubátur Laxa ehf.

Frystiskipið Sólberg ÓF sem er í eigu Ramma hf. var í flotkvínni þar sem botn var málaður sem og síður og frystilest. Breytingar voru gerðar á stýrisbúnaði sem er engin smásmíði ásamt öðrum minni viðhaldsverkefnum. Ragnar Aðalsteinsson útgerðarstjóri Ramma var ánægður með verkið.

„Það er óneitanlega mikill kostur að geta tekið svona stórt skip á þurrt nálægt heimabyggð og fengið alla almenna þjónustu. Þær breytingar sem voru gerðar tókust vel og kláraði Slippurinn verkið á tilsettum tíma sem var okkur mjög mikilvægt“.

Erlendu frystiskipin Polonus og Angunnguaq II hafa verið hjá Slippnum Akureyri í töluverðan tíma og er áætlað að þau haldi til veiða á næstu vikum.

Það má því segja að það sé líf og fjör á athafnasvæði Slippsins og er fyrirliggjandi að það haldi áfram á komandi mánuðum.

Sviðsstjóri Slippsins

Við leitum að metnaðarfullum, öflugum einstakling til að leiða þjónustu- og skipaviðgerðarsvið Slippsins Akureyri ehf.

Lestarkerfi sett upp í Björgu EA 7

Í seinasta mánuði lauk Slippurinn Akureyri uppsetningu á nýju lestarkerfi í Björgu EA 7, ferskfisktogara í eigu Samherja. Kerfið byggir á því að tómum kerjum er lyft á sjálfvirkan hátt úr magasíni í lest og upp á vinnsluþilfar þar sem kerunin fer fram. Full ker af vinnsluþilfari eru síðan send með lyftu niður í lest, þar sem kerastæðum er safnað saman í magasíni sem rúmar allt að 35 ker. Lestarkerfið byggir að mestu á lestarkerfinu sem Slippurinn hannaði og smíðaði í Kaldbak EA 1 sem reynst hefur í alla staði mjög vel.

Kjartan Vilbergsson yfirvélstjóri á Björgu er ángæður með nýja lestarkerfið.

„ Lestarkerfið bætir alla vinnuaðstöðu fyrir hásetana en það bæði auðveldar okkur vinnuna og eykur öryggi til muna. Það er mikill kostur að kerfið er einfalt og skilvirkt. Við fórum með kerfið nýtt út í brælutúr og það gekk hnökralaust“ segir Kjartan í spjalli við heimasíðuna.

Á meðan að uppsetningu lestarkerfisins stóð sinntu starfsmenn Slippsins öllu almennu viðhaldi á skipinu. Sett var upp krapakerfi í skipinu og gerðar minni háttar breytingar fremst á vinnsluþilfari til að aðlaga vinslubúnaðinn nýja lestarkerfinu og kerunaraðstöðunni. Skipið var jafnframt tekið upp í flotkví, það málað og aðalvél tekin upp.

Verkefni sem þessi, þ.e.a.s. þar sem saman fer almennt viðhald og breytingar á fiskiskipi auk endurnýjunar á vinnslubúnaði þess, eru að verða æ algengari hjá okkur í Slippnum enda búa starfsmenn fyrirtækisins yfir mikilli reynslu og þekkingu á þessu sviði.