Slippurinn Akureyri með vinnslubúnað fyrir kanadíska útgerð

Slippurinn Akureyri vinnur þessa dagana að hönnun, smíði og uppsetningu á vinnsludekki um borð í línuskipinu Kiviuq 1 sem áður hét Anna EA 305 og var í eigu Útgerðarfélags Akureyringa. Verkkaupi er kanadíska útgerðarfyrirtækið Arctic Fishery Alliance sem gerir út á grálúðu á heimskautasvæði Kanada.

Ásamt nýju vinnsludekki sér Slippurinn um yfirgripsmikil verkefni svo sem nýjar klæðningar í vinnslu og línurými, heilmálun, upptektir á vélbúnaði, stálvinnu auk annarra viðhaldsverkefna.

Við hönnun á vinnsludekkinu var lögð áhersla góð afköst, blæðingu og þvott á fiski, lágmörkun yfirvigtar og fækkun á handtökum við pökkun og úrslátt.

„Slippurinn Akureyri er með þá sérstöðu að geta boðið heildarlausn fyrir útgerðarfyrirtæki sem felst í almennri viðhaldsþjónustu ásamt hönnun/uppfærslu og smíði á vinnsludekki – allt á einum stað. Í þessu felast miklir möguleikar og töluverð hagkvæmni fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Magnús Blöndal sviðsstjóri DNG sem er eitt af vörumerkjum Slippsins.

Framsýnir útgerðarmenn

„Samstarfið við útgerðina á hönnunarstiginu gekk vel og var fróðlegt fyrir Slippinn Akureyri þar sem áskoranirnar á þeirra heimamiðum eru ólíkar því sem við eigum að venjast. Til dæmis er blóðdálkurinn soginn úr lúðunni og slógi safnað allan daginn. Það er gert til að hvalur laðist síður að línunni. Eins valdi útgerðin rafmagnsknúinn línubúnað frá Mustad til að minnka hávaða frá skipinu. Það er alltaf gaman að vinna með framsýnum útgerðum sem eru tilbúnar til að gera nýja hluti,” segir Ásþór Sigurgeirsson verkefnastjóri.

Áætlað er að skipið verið tilbúið til veiða í sumar og er mikil tilhlökkun hjá útgerðinni að taka við skipinu.

„Við hjá Arctic Fishery Alliance erum mjög spennt að hefja veiðar á skipinu og bindum miklar vonir við nýja vinnsludekkið. Við erum afar ánægð með samstarfið við Slippinn, þeirra sérfræðiþekkingu og vinnubrögð. Nýja vinnsludekkið mun skila hágæða hráefni og við erum full tilhlökkunar fyrir áframhaldandi samstarfi við Slippinn Akureyri,“ segir Keith Coady, útgerðarstjóri Arctic Alliance Fisheries.

Nýsmíði á Stýri í Konsúl

Konsúll, hvalaskoðunarbátur, kom til Slippsins í stutta þjónustu um miðjan mars síðastliðinn. Hann átti að fara í smávægilegar viðgerðir og fara yfir botnloka. Það hafði verið smá slag í stýrisbúnaði sem var ákveðið af eigendum að skoða betur. Við skoðun kom í ljós að boltagöt á kvaðröntum voru orðin sporöskjulaga því var ákveðið að lagfæra það.
Þar sem stýrin höfðu verið skoðuð, var ákveðið að athuga með rýmd í stýrum, en hún reyndist vera of mikil og því óx umsvif verkefnisins hratt. Stýrin voru fjarlægð og flutt inná vélsmiðju. Það var greinilegt að stýrisblöðin voru tærð, þar sem sjór lak úr blöðum þegar þau voru lögð á hliðina. Þar sem efnið var orðið tært, komu ný göt þegar reynt var að sjóða þau. Eftir samtal við eigendur var lendingin sú að hönnuð voru og smíðuð tvö ný stýri með öllu tilheyrandi.
Slippurinn sá um þau endursmíði. Nýjar stýrisblöðkur, stammar, fóðringar, kvaðrantar og stillanleg millibilsstöng voru smíðuð, en gamla stöngin var ekki stillanleg.
Mikilvægt var að viðgerðin tæki sem stystan tíma, þar sem margar bókanir voru í hvalaskoðun. Það liðu 8 dagar frá því að ákvörðun var tekin að smíða ný stýri, þar til skipið var aftur komið á flot og tilbúið að sinna sínum verkefnum. Það verður teljast vel að verki fyrir þessa endursmíði og samsetningu.
„Eftir viðgerðina er ekkert gjögt í stýrisbúnaðinum og skipið búið að bæta við sig tveimur sjómílum. Við erum mjög sáttir með niðurstöðuna og stöndum eftir með mun betra sjóskip í höndunum”, sagði Guðmundur vélstjóri í Konsúl.

Slippurinn opnar vöruþróunarsetur

Slippurinn opnar vöruþróunarsetur

Slippurinn Akureyri hefur sett á laggirnar vöruþróunarsetur, þar sem sérhæfðir starfsmenn munu vinna að hönnun og þróun margvíslegra tæknilausna í matvælavinnslu.

Undirbúningur að stofnun vöruþróunarsetursins hefur staðið yfir í um eitt ár.

Páll Kristjánsson framkvæmdastjóri Slippsins segir nýsköpunar- og þróunarstarf lykilinn að framþróun félagsins á komandi árum. Verkefni vöruþróunarsetursins verði fjölbreytt, sem komi til með að skila afurðum á markað og opna nýjar dyr að frekari verkefnum

Mikilvægi þekkingar og samvinnu

Starfsemi Slippsins hefur tekið verulegum breytingum á undanförnum árum og mikil áhersla er lögð á nýsköpun.

„Starfsfólk Slippsins hefur sýnt og sannað að það er í fremstu röð á sínu sviði í þjónustu við alþjóðlegan sjávarútveg, enda hafa tekjur félagins vegna erlendra verkefna vaxið mjög. Auðvitað munum við áfram leggja ríka áherslu á heildarlausnir í hönnun, þróun og endurnýjun á skipum og búnaði þeirra, Slippurinn er fremsta þjónustustöð skipa á Íslandi og mun vera það áfram. Hérna starfa um 150 manns en einnig erum við í samstarfi við fjölmörg fyrirtæki til þess að geta boðið upp á heildarlausnir í matvælavinnslu. Hraðinn í vöruþróun er mikill og við slíkar aðstæður sannast mikilvægi þekkingar og samvinnu. Vöruþróunarsetrinu er einmitt ætlað að vera öflugur hlekkur í þeirri mikilvægu keðju,“ segir Páll Kristjánsson.

Rökrétt skref

Slippurinn keypti í júlí sl. fasteignir, vélar, tæki og hluta hönnunar Martaks í Grindavík, sem hefur frá stofnun verið leiðandi á sviði tæknilausna fyrir rækjuiðnaðinn og á síðustu árum sinnt sambærilegum lausnum fyrir vinnslu á hvítfiski.

„Vöruþróunarsetrið er rökrétt skref í þá átt að sækja fram, enda hefur verkefnum í landvinnslu fjölgað mikið hjá okkur á undanförnum misserum. Ég nefni í þessu sambandi gríðarlega uppbyggingu í fiskeldi víðs vegar um land, sem við munum kappkosta að þjónusta og koma að nýsmíði, sem og í annarri matvælavinnslu. Þegar eru í gangi vöruþróunarverkefni sem lúta að vinnslu á bæði hvítfiski og eldisfiski og í vöruþróunarsetrinu verður meðal annars horft til þess að þróa tæknilausnir Martaks enn frekar sem og að samþættingu vörulína, svo sem hugbúnaðarstýringar og fleira. Við sjáum sömuleiðis fyrir okkur aukið samstarf við frumkvöðla og aðra aðila sem koma að vöruþróun með einum eða öðrum hætti.“

Góð uppskera

Allur vinnslubúnaður Slippsins er markaðssettur undir vörumerkinu „DNG by Slippurinn“ og svo er einnig um framleiðsluna og þjónustuna í Grindavík.

„Opnun vöruþróunarsetursins er risastórt framfaraskref og ég bind miklar vonir við starfsemina, enda hefur öflugur hópur starfsfólks Slippsins lagt mikinn metnað í allan undirbúning. Þetta er lausnamiðaður hópur með fjölbreyttan bakgrunn og ég er ekki í vafa um að uppskeran verður ríkuleg, enda jarðvegurinn frjór,“ segir Páll Kristjánsson framkvæmdastjóri Slippsins.

Veiðar og vinnsla fara vel af stað hjá franska togaranum Fisher Bank   

Slippurinn Akureyri og franska útgerðarfyrirtækið Euronor gerðu samning seint á síðasta ári um hönnun, smíði og uppsetningu á vinnslum í tvö skip félagsins, þeim Fisher Bank og Otter Bank. Samhliða var farið í yfirgripsmikil viðhaldsverkefni í báðum skipunum.  Fisher Bank hefur nú verið á veiðum í rúma fjóra mánuði.

„Veiðar og vinnsla ganga vel, gæði aflans eru góð og við fáum  hátt verð fyrir aflann“ segir Bruno Leduc framkvæmdarstjóri Euronor.

Magnús Blöndal sviðsstjóri framleiðsludeildar Slippsins er ánægður með verkefnið og samstarfið með Euronor á meðan á verkinu stóð.

„Verkið var frábrugðið hinu hefbundna verkefni Slippsins að því leyti að reglugerðir og vinnulag innan  ESB er frábrugðið því sem við eigum að venjast hér á heimamiðum“

Þar má nefna að mikill meirihluti aflans er vélslægður og er þess vegna notast við tvær slægingarvélar í hvoru skipi. Þar sem ekki er skorið á slagæðar þegar slægt er með slægingarvélum verður blæðing þróttminni í hverjum fiski og blóðtæming erfiðari.  Í skipið var sett Sæljón frá Slippnum Akureyri sem er stýrt blæðingar- og þvottaferli sem tryggir góða blóðtæmingu og afar góða aflameðferð. Vélslægði aflinn fer eftir blæðingar- og þvottaferli í gegnum stærðarflokkara frá Slippnum Akureyri sem er fyrsti flokkari sinnar tegundar. Þaðan er aflinn vigtaður sjálfvirkt í skammta fyrir hvert fiskiker í lest skipsins. Þegar skammtur í ker kemur í lest eru prentaðar upplýsingar sem fylgja hverju keri með upplýsingum um fisktegund, magn, dagsetningu og svo framvegis, líkt og þekkist við frystingu á Íslandsmiðum. Um borð í skipið var einnig sett krapavél frá KAPP til kælingar í lest og í vinnslu.

„Áhöfnin er ánægð með hönnunina á vinnsludekkinu. Við erum að landa á markaði  í Danmörku og Frakklandi auk þess sem við höfum verið sigla til Færeyja. Við finnum að eftirspurnin eftir fiskinum frá Fisher Bank hefur aukist“ segir Bruno.

Aðspurður um fleiri sambærileg verkefni erlendis í framtíðinni segir Magnús.

„Umsvifin hafa aukist og eru fleiri en eitt erlent verkefni í pípunum núna. Við finnum fyrir miklum áhuga á okkar lausnum í aflameðferð bæði hér heima og erlendis þar sem vörulína okkar hefur stækkað mikið á undaförnum árum“.

Ný starfsstöð í Grindavík

Slippurinn opnar starfsstöð í Grindavík sem mun þjóna viðskiptavinum á suðvestur horni landsins.
                                                                                                                                                          Slippurinn Akureyri ehf. hefur keypt fasteignir, vélar og tæki Martaks í Grindavík. Með kaupunum flytjast tíu starfsmenn Martaks til Slippsins frá og með 1. júlí 2022.
                                                                                                                                                                  Aðrir starfsmenn Martaks fylgja félaginu til áframhaldandi rekstrar.
                                                                                                                                                Framkvæmdastjóri Slippsins segir mikilvægt að vera með starfsstöð á Reykjanesi og geta þannig veitt viðskiptavinum á höfuðborgarsvæðinu og suðvestur horni landsins aukna þjónustu. Í Grindavík er sjávarútvegurinn öflug atvinnugrein auk þess sem staðsetningin er ákjósanleg til að þjónusta fiskeldi sem er að byggjast upp á Reykjanesi sem og á Suðurlandi.
                                                                                                                                                              Eigandi Martaks segir að samvinna fyrirtækjanna hafi skilað góðum árangri á undanförnum árum, þessi viðskipti gefi tilefni til bjartsýni og frekari uppbyggingar á komandi misserum.
Sérhæfð starfsemi
                                                                                                                                                                Martak hefur frá stofnun þess, fyrir tæpum fjörutíu árum, verið leiðandi á sviði tæknilausna og þjónustu fyrir rækjuiðnaðinn en hefur síðustu ár í auknum mæli sinnt sambærilegum verkefnum fyrir fiskiðnaðinn. Fyrirtækið er með starfstöðvar á Íslandi og Kanada og mun þaðan sinna núverandi og nýjum viðskiptavinum.
                                                                                                                                                              Martak hefur einnig á síðustu misserum boðið upp á heildstæðar lausnir til hreinsunar á frárennsli fyrirtækja og sveitarfélaga.
                                                                                                                                                            Slippurinn er leiðandi fyrirtæki á sínu sviði hér á landi og veitir alhliða þjónustu við sjávarútveginn, bæði á Íslandi og erlendis. Fyrirtækið býður heildarlausnir í hönnun, þróun og endurnýjun á skipum og búnaði þeirra, auk þess sem svonefndum landverkefnum hefur fjölgað á undanförnum árum. Framleiðslufyrirtækið DNG er í eigu Slippsins, öll framleiðsluvara og vinnslubúnaður Slippsins er markaðssettur undir vörumerkinu „DNG by Slippurinn “ og svo verður um framleiðsluna og þjónustuna í Grindavík.
                                                                                                                                                                Slippurinn hefur síðustu ár tekið að sér sífellt stærri verkefni tengd fiskeldi og mun Slippurinn leitast við með þessum kaupum að þjónusta núverandi fiskeldisfyrirtæki á svæðinu auk þess að koma að nýsmíðum og þjónustu við þá uppbyggingu sem á sér stað á svæðinu.
Bætt þjónusta nær heimasvæðum viðskiptavina. Aukið vöruframboð.
                                                                                                                                                                      Páll Kristjánsson framkvæmdastjóri Slippsins:
„Örar tæknibreytingar hafa orðið á undanförnum áratugum á öllum sviðum matvælavinnslu, sem stuðlað hafa að bættri nýtingu afurða og auknum gæðum. Íslendingar eru framarlega á þessu sviði, sérstaklega í sjávarútvegi. Ástæðan er meðal annars vegna náins samstarfs atvinnugreinarinnar og fyrirtækja í tækni- og þekkingargeiranum.
Slippurinn og Martak hafa um árabil átt í góðu samstarfi, bæði hérna á Íslandi og erlendis. Með þessum viðskipum er sambandið styrkt til mikilla muna, báðum félögunum til hagsbóta.
Ég tel þetta því jákvætt og rökrétt skref og hlakka til að vinna áfram með mjög svo hæfu starfsfólki Martaks. Fyrir Slippinn er einnig mikilvægt að vera með öfluga starfsstöð sem næst höfuðborgarsvæðinu, þar sem sjávarútvegur er öflugur og tengd starfsemi. Með kaupunum getum við boðið núverandi og nýjum viðskiptavinum enn betri þjónustu nær þeirra heimasvæði, auk þess sem vöruframboð Slippsins eykst. Í raun má segja að við séum að svara kalli viðskiptavina okkar og um leið að treysta starfsemina til muna.“
                                                                                                                                                                          Ríkur mannauður
Jón Ósmann eigandi Martaks:
„Martak hefur náð góðum árangri á undanförnum árum, enda hafa tæknilausnir og þjónusta þess vakið verðskuldaða athygli víða um heim. Þessar breytingar gefa Martaki tækifæri á því að einblína og sinna enn betur ört vaxandi markaði fyrir hátæknibúnað í rækjuvinnslu og fyrir búnað til hreinsunar á frárennsli fyrirtækja og sveitarfélaga.
Martak hefur átt í góðu og farsælu samstarfi við Slippinn í gegnum tíðina og því gefa þessi viðskipti tilefni til bjartsýni og enn frekari uppbyggingar á komandi misserum. Mannauður fyrirtækjanna er ríkur, sem er forsenda þess að standast harða alþjóðlega samkeppni. Ég hlakka til að sjá Slippinn vaxa og dafna hérna fyrir sunnan.“

Mannabreytingar hjá Slippnum

Páll Kristjánsson ráðinn framkvæmdastjóri Slippsins


Páll Kristjánsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Slippsins á Akureyri og tekur við starfinu um áramótin. Páll hefur stýrt framleiðslusviði félagsins. Hann er viðskiptafræðingur með framhaldsmenntun í fjármálum og alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Árósum í Danmörku.
Páll þekkir vel til sjávarútvegstengdra verkefna, en hann starfaði áður hjá Marel, 3X Technology og sjávarútvegsfyrirtækinu GPG Seafood á Húsavík, þar sem hann var framkvæmdastjóri.

Eiríkur S. Jóhannsson sem verið hefur framkvæmdastjóri Slippsins í sex og hálft ár lætur af störfum á sama tíma. Hann mun verða stjórn og stjórnendum til ráðgjafar á komandi mánuðum.

Starfsfólki Slippsins var greint frá þessu í dag, ásamt öðrum skipulagsbreytingum í rekstri félagsins.

Margt í pípunum

„Starfsmenn Slippsins eru um 150 en má segja að þeir séu mun fleiri, því við leitum í ríku mæli til samstarfsfyrirtækja, þannig getum við þjónað viðskiptavinum okkar enn betur og boðið upp á heildarlausnir. Slippurinn hefur alltaf lagt ríka áherslu á góða og faglega þjónustu, sem er líklega
helsta ástæðan fyrir því að viðskiptavinirnir koma  aftur til okkar. Það er margt í pípunum og
fullt tilefni til bjartsýni á þessum tímapunkti.
Slippurinn er öflugt fyrirtæki með frábært starfsfólk og ég er því fullur tilhlökkunar,“ segir Páll Kristjánsson.

Bjartsýnn á framtíðina                                                                             

„Ég lít stoltur um öxl. Tími minn hjá Slippnum hefur verið mér gefandi. Við höfum í sameiningu treyst undirstöður fyrirtækisins til muna og lagt mikið af mörkum til nýsköpunar, sem ég trúi að skapi Slippnum fjölmörg sóknartækifæri.  Ég er bjartsýnn fyrir hönd Slippsins á komandi tímum, enda hefur starfsfólk félagsins sýnt og sannað að það er í fremstu röð á sínu sviðið í þjónustu við alþjóðlegan sjávarútveg sem og aðra viðskiptavini, „ segir Eiríkur S. Jóhannsson. Aðspurður um tímasetningu þessara breytinga, segir hann „Ég er í stjórnum margra félaga sem krefjast mun meiri athygli en ég hef náð að veita að undanförnu.  Slippurinn er í góðum höndum hjá Páli og hans fólki, því var þessi ákvörðun einföld og að ég tel, félaginu til framdráttar,“ segir Eiríkur S. Jóhannsson.

 

 

Aðrar skipulagsbreytingar kynntar

Magnús Blöndal Gunnarsson, sem verið hefur markaðsstjóri undanfarin ár, tekur  við stjórn framleiðslusviðs félagsins af Páli Kristjánssyni. Magnús er sjávarútvegs- og fiskeldisfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og Háskólanum að Hólum.

Samhliða þessum breytingum mun Kristján H. Kristjánsson mannauðsstjóri taka yfir kynningarmál Slippsins. Kristján er menntaður byggingafræðingur, með áherslu á stjórnun, frá VIA University í Horsens í Danmörku.

Nýverið tók Sveinbjörn Pálsson við stjórn Skipaþjónustusviðs Slippsins. Sveinbjörn er iðnaðarverkfræðingur frá Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg og hefur víðtæka starfreynslu til sjós og lands. Hann kom til Slippsins frá upplýsingatæknifyrirtækinu Þekkingu.

Í sumar tók Elsa Björg Pétursdóttir við starfi fjármálastjóra félagsins. Elsa er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur m.a. starfað um árabil hjá Íslandsbanka, seinast sem svæðisstjóri einstaklingsviðskipta á Norður- og Austurlandi. 

Fjölbreytni starfa er mjög mikil hjá Slippnum og starfsmannavelta almennt lítil. Safnast hefur upp áralöng þekking og reynsla sem einkennir vinnubrögð hjá starfsmönnum félagsins.

Fréttatilkynning frá Slippnum Akureyri 14.12.2021