Veiðar og vinnsla fara vel af stað hjá franska togaranum Fisher Bank   

Slippurinn Akureyri og franska útgerðarfyrirtækið Euronor gerðu samning seint á síðasta ári um hönnun, smíði og uppsetningu á vinnslum í tvö skip félagsins, þeim Fisher Bank og Otter Bank. Samhliða var farið í yfirgripsmikil viðhaldsverkefni í báðum skipunum.  Fisher Bank hefur nú verið á veiðum í rúma fjóra mánuði.

„Veiðar og vinnsla ganga vel, gæði aflans eru góð og við fáum  hátt verð fyrir aflann“ segir Bruno Leduc framkvæmdarstjóri Euronor.

Magnús Blöndal sviðsstjóri framleiðsludeildar Slippsins er ánægður með verkefnið og samstarfið með Euronor á meðan á verkinu stóð.

„Verkið var frábrugðið hinu hefbundna verkefni Slippsins að því leyti að reglugerðir og vinnulag innan  ESB er frábrugðið því sem við eigum að venjast hér á heimamiðum“

Þar má nefna að mikill meirihluti aflans er vélslægður og er þess vegna notast við tvær slægingarvélar í hvoru skipi. Þar sem ekki er skorið á slagæðar þegar slægt er með slægingarvélum verður blæðing þróttminni í hverjum fiski og blóðtæming erfiðari.  Í skipið var sett Sæljón frá Slippnum Akureyri sem er stýrt blæðingar- og þvottaferli sem tryggir góða blóðtæmingu og afar góða aflameðferð. Vélslægði aflinn fer eftir blæðingar- og þvottaferli í gegnum stærðarflokkara frá Slippnum Akureyri sem er fyrsti flokkari sinnar tegundar. Þaðan er aflinn vigtaður sjálfvirkt í skammta fyrir hvert fiskiker í lest skipsins. Þegar skammtur í ker kemur í lest eru prentaðar upplýsingar sem fylgja hverju keri með upplýsingum um fisktegund, magn, dagsetningu og svo framvegis, líkt og þekkist við frystingu á Íslandsmiðum. Um borð í skipið var einnig sett krapavél frá KAPP til kælingar í lest og í vinnslu.

„Áhöfnin er ánægð með hönnunina á vinnsludekkinu. Við erum að landa á markaði  í Danmörku og Frakklandi auk þess sem við höfum verið sigla til Færeyja. Við finnum að eftirspurnin eftir fiskinum frá Fisher Bank hefur aukist“ segir Bruno.

Aðspurður um fleiri sambærileg verkefni erlendis í framtíðinni segir Magnús.

„Umsvifin hafa aukist og eru fleiri en eitt erlent verkefni í pípunum núna. Við finnum fyrir miklum áhuga á okkar lausnum í aflameðferð bæði hér heima og erlendis þar sem vörulína okkar hefur stækkað mikið á undaförnum árum“.

Ný starfsstöð í Grindavík

Slippurinn opnar starfsstöð í Grindavík sem mun þjóna viðskiptavinum á suðvestur horni landsins.
                                                                                                                                                          Slippurinn Akureyri ehf. hefur keypt fasteignir, vélar og tæki Martaks í Grindavík. Með kaupunum flytjast tíu starfsmenn Martaks til Slippsins frá og með 1. júlí 2022.
                                                                                                                                                                  Aðrir starfsmenn Martaks fylgja félaginu til áframhaldandi rekstrar.
                                                                                                                                                Framkvæmdastjóri Slippsins segir mikilvægt að vera með starfsstöð á Reykjanesi og geta þannig veitt viðskiptavinum á höfuðborgarsvæðinu og suðvestur horni landsins aukna þjónustu. Í Grindavík er sjávarútvegurinn öflug atvinnugrein auk þess sem staðsetningin er ákjósanleg til að þjónusta fiskeldi sem er að byggjast upp á Reykjanesi sem og á Suðurlandi.
                                                                                                                                                              Eigandi Martaks segir að samvinna fyrirtækjanna hafi skilað góðum árangri á undanförnum árum, þessi viðskipti gefi tilefni til bjartsýni og frekari uppbyggingar á komandi misserum.
Sérhæfð starfsemi
                                                                                                                                                                Martak hefur frá stofnun þess, fyrir tæpum fjörutíu árum, verið leiðandi á sviði tæknilausna og þjónustu fyrir rækjuiðnaðinn en hefur síðustu ár í auknum mæli sinnt sambærilegum verkefnum fyrir fiskiðnaðinn. Fyrirtækið er með starfstöðvar á Íslandi og Kanada og mun þaðan sinna núverandi og nýjum viðskiptavinum.
                                                                                                                                                              Martak hefur einnig á síðustu misserum boðið upp á heildstæðar lausnir til hreinsunar á frárennsli fyrirtækja og sveitarfélaga.
                                                                                                                                                            Slippurinn er leiðandi fyrirtæki á sínu sviði hér á landi og veitir alhliða þjónustu við sjávarútveginn, bæði á Íslandi og erlendis. Fyrirtækið býður heildarlausnir í hönnun, þróun og endurnýjun á skipum og búnaði þeirra, auk þess sem svonefndum landverkefnum hefur fjölgað á undanförnum árum. Framleiðslufyrirtækið DNG er í eigu Slippsins, öll framleiðsluvara og vinnslubúnaður Slippsins er markaðssettur undir vörumerkinu „DNG by Slippurinn “ og svo verður um framleiðsluna og þjónustuna í Grindavík.
                                                                                                                                                                Slippurinn hefur síðustu ár tekið að sér sífellt stærri verkefni tengd fiskeldi og mun Slippurinn leitast við með þessum kaupum að þjónusta núverandi fiskeldisfyrirtæki á svæðinu auk þess að koma að nýsmíðum og þjónustu við þá uppbyggingu sem á sér stað á svæðinu.
Bætt þjónusta nær heimasvæðum viðskiptavina. Aukið vöruframboð.
                                                                                                                                                                      Páll Kristjánsson framkvæmdastjóri Slippsins:
„Örar tæknibreytingar hafa orðið á undanförnum áratugum á öllum sviðum matvælavinnslu, sem stuðlað hafa að bættri nýtingu afurða og auknum gæðum. Íslendingar eru framarlega á þessu sviði, sérstaklega í sjávarútvegi. Ástæðan er meðal annars vegna náins samstarfs atvinnugreinarinnar og fyrirtækja í tækni- og þekkingargeiranum.
Slippurinn og Martak hafa um árabil átt í góðu samstarfi, bæði hérna á Íslandi og erlendis. Með þessum viðskipum er sambandið styrkt til mikilla muna, báðum félögunum til hagsbóta.
Ég tel þetta því jákvætt og rökrétt skref og hlakka til að vinna áfram með mjög svo hæfu starfsfólki Martaks. Fyrir Slippinn er einnig mikilvægt að vera með öfluga starfsstöð sem næst höfuðborgarsvæðinu, þar sem sjávarútvegur er öflugur og tengd starfsemi. Með kaupunum getum við boðið núverandi og nýjum viðskiptavinum enn betri þjónustu nær þeirra heimasvæði, auk þess sem vöruframboð Slippsins eykst. Í raun má segja að við séum að svara kalli viðskiptavina okkar og um leið að treysta starfsemina til muna.“
                                                                                                                                                                          Ríkur mannauður
Jón Ósmann eigandi Martaks:
„Martak hefur náð góðum árangri á undanförnum árum, enda hafa tæknilausnir og þjónusta þess vakið verðskuldaða athygli víða um heim. Þessar breytingar gefa Martaki tækifæri á því að einblína og sinna enn betur ört vaxandi markaði fyrir hátæknibúnað í rækjuvinnslu og fyrir búnað til hreinsunar á frárennsli fyrirtækja og sveitarfélaga.
Martak hefur átt í góðu og farsælu samstarfi við Slippinn í gegnum tíðina og því gefa þessi viðskipti tilefni til bjartsýni og enn frekari uppbyggingar á komandi misserum. Mannauður fyrirtækjanna er ríkur, sem er forsenda þess að standast harða alþjóðlega samkeppni. Ég hlakka til að sjá Slippinn vaxa og dafna hérna fyrir sunnan.“

Mannabreytingar hjá Slippnum

Páll Kristjánsson ráðinn framkvæmdastjóri Slippsins


Páll Kristjánsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Slippsins á Akureyri og tekur við starfinu um áramótin. Páll hefur stýrt framleiðslusviði félagsins. Hann er viðskiptafræðingur með framhaldsmenntun í fjármálum og alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Árósum í Danmörku.
Páll þekkir vel til sjávarútvegstengdra verkefna, en hann starfaði áður hjá Marel, 3X Technology og sjávarútvegsfyrirtækinu GPG Seafood á Húsavík, þar sem hann var framkvæmdastjóri.

Eiríkur S. Jóhannsson sem verið hefur framkvæmdastjóri Slippsins í sex og hálft ár lætur af störfum á sama tíma. Hann mun verða stjórn og stjórnendum til ráðgjafar á komandi mánuðum.

Starfsfólki Slippsins var greint frá þessu í dag, ásamt öðrum skipulagsbreytingum í rekstri félagsins.

Margt í pípunum

„Starfsmenn Slippsins eru um 150 en má segja að þeir séu mun fleiri, því við leitum í ríku mæli til samstarfsfyrirtækja, þannig getum við þjónað viðskiptavinum okkar enn betur og boðið upp á heildarlausnir. Slippurinn hefur alltaf lagt ríka áherslu á góða og faglega þjónustu, sem er líklega
helsta ástæðan fyrir því að viðskiptavinirnir koma  aftur til okkar. Það er margt í pípunum og
fullt tilefni til bjartsýni á þessum tímapunkti.
Slippurinn er öflugt fyrirtæki með frábært starfsfólk og ég er því fullur tilhlökkunar,“ segir Páll Kristjánsson.

Bjartsýnn á framtíðina                                                                             

„Ég lít stoltur um öxl. Tími minn hjá Slippnum hefur verið mér gefandi. Við höfum í sameiningu treyst undirstöður fyrirtækisins til muna og lagt mikið af mörkum til nýsköpunar, sem ég trúi að skapi Slippnum fjölmörg sóknartækifæri.  Ég er bjartsýnn fyrir hönd Slippsins á komandi tímum, enda hefur starfsfólk félagsins sýnt og sannað að það er í fremstu röð á sínu sviðið í þjónustu við alþjóðlegan sjávarútveg sem og aðra viðskiptavini, „ segir Eiríkur S. Jóhannsson. Aðspurður um tímasetningu þessara breytinga, segir hann „Ég er í stjórnum margra félaga sem krefjast mun meiri athygli en ég hef náð að veita að undanförnu.  Slippurinn er í góðum höndum hjá Páli og hans fólki, því var þessi ákvörðun einföld og að ég tel, félaginu til framdráttar,“ segir Eiríkur S. Jóhannsson.

 

 

Aðrar skipulagsbreytingar kynntar

Magnús Blöndal Gunnarsson, sem verið hefur markaðsstjóri undanfarin ár, tekur  við stjórn framleiðslusviðs félagsins af Páli Kristjánssyni. Magnús er sjávarútvegs- og fiskeldisfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og Háskólanum að Hólum.

Samhliða þessum breytingum mun Kristján H. Kristjánsson mannauðsstjóri taka yfir kynningarmál Slippsins. Kristján er menntaður byggingafræðingur, með áherslu á stjórnun, frá VIA University í Horsens í Danmörku.

Nýverið tók Sveinbjörn Pálsson við stjórn Skipaþjónustusviðs Slippsins. Sveinbjörn er iðnaðarverkfræðingur frá Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg og hefur víðtæka starfreynslu til sjós og lands. Hann kom til Slippsins frá upplýsingatæknifyrirtækinu Þekkingu.

Í sumar tók Elsa Björg Pétursdóttir við starfi fjármálastjóra félagsins. Elsa er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur m.a. starfað um árabil hjá Íslandsbanka, seinast sem svæðisstjóri einstaklingsviðskipta á Norður- og Austurlandi. 

Fjölbreytni starfa er mjög mikil hjá Slippnum og starfsmannavelta almennt lítil. Safnast hefur upp áralöng þekking og reynsla sem einkennir vinnubrögð hjá starfsmönnum félagsins.

Fréttatilkynning frá Slippnum Akureyri 14.12.2021

 

 

Það er líflegt á athafnasvæði Slippsins Akureyri

Verkefnastaða Slippsins Akureyri hefur verið góð undafarna mánuði og útséð að hún haldist þannig út árið. Auk Frosta ÞH sem Slippurinn annast nú m.a. endurnýjun vinnslubúnaðar skipsins, þá eru frystitogarnir Arnar HU og Hrafn Sveinbjarnarson GK við viðlegukantinn en útgerðirnar Fisk Seafood og Þorbjörn gera skipin út.

Í Arnari HU var skipt um allar legur í togspili, skipið heilmálað og öxuldregið, upptekt á skrúfuhaus ásamt breytingum og smíði á nýjum búnaði fyrir vinnsludekkið. Kælismiðjan Frost hefur einnig unnið við breytingar á frystikerfinu í skipinu og aðstoðaði Slippurinn við að koma eldri búnaði frá borði og smíða undirstöður fyrir nýjan búnað.

Hrafn Sveinbjarnarson kom í Slippinn fyrir rúmum tveimur vikum síðan en til stendur að aðstoða Kælismiðjuna Frost við niðurrif á frystikerfinu í skipinu, smíða nýtt frystivélarrými, mála vinnsludekkið í skipinu ásamt öðrum minniháttar viðhaldsverkefnum.

Uppsjávarskipið Sighvatur Bjarnason VE sem er í eigu Vinnslustöðvarinnar er í dráttarbrautinni þar sem ætlunin er að gera skipið klárt fyrir komandi loðnuvertíð.

Sveinbjörn Pálsson nýráðinn sviðsstjóri skipaþjónustu Slippsins Akureyri er ánægður með stöðu mála þessar vikurnar.

„Verkefnastaðan er góð en sökum stærðar okkar við höfum þó yfirleitt tök á því að bæta við okkur verkefnum, komi upp þannig aðstæður. Við erum byrjaðir að fá inn bókanir fyrir næsta ár enda erum við að upplifa að afhendingartími á öllum aðföngum er mun lengri áður og því er mjög mikilvægt að skipuleggja verkefnin vel og huga snemma að viðhaldsmálum komandi mánaða. Við hjá Slippnum höfum verið að undirbúa okkur fyrir að geta þjónustað viðskiptavini okkar sem best, bæði með aukinni verkþekkingu sem og útvegun aðfanga í gegnum tengslanet okkar innanlands sem og erlendis. Útgerðir uppsjávarskipa eru nú í óða önn að undirbúa stóra loðnuvertíð og erum við nú að aðstoða útgerðirnar við undirbúning skipa fyrir hana. Þetta er gríðarleg lyftistöng fyrir útgerðina sem og alla þá sem starfa við að þjónusta sjávarútveginn“ segir Sveinbjörn.

Í framleiðsludeild Slippsins er áfram unnið að nýsmíði í Frosta ÞH en einnig er unnið að ráðgjöf og smíði búnaðar fyrir innlenda aðila sem og erlenda sem vonandi verður hægt að segja frá seinna.

Slippurinn Akureyri endurnýjar vinnslubúnað í Frosta

Slippurinn Akureyri ehf og Frosti ehf hafa gert með sér samkomulag þar sem Slippurinn mun bera ábyrgð á hönnun, smíði og uppsetningu á nýjum vinnslubúnaði í ísfisktogarann Frosta ÞH 229. Áætlað er að uppsetning á búnaðinum muni hefjast í október.

„Nýji búnaðurinn mun tryggja góð og jöfn gæði þar sem áhersla er lögð á góða blæðingu og þvott á fiski ásamt háu rekstraröryggi. Við notum besta búnað sem völ er á“ segir Páll Kristjánsson sviðsstjóri framleiðslusviðs hjá Slippnum.

Samhliða breytingum á vinnsludekkinu verður þilfarið vatnsblásið, einangrun endurnýjuð og gólf klædd slitsterku efni. Skipið verður jafnframt málað ásamt því sem öðru hefðbundnu viðhaldi verður sinnt.

„Þetta verkefni er gott dæmi um styrkleika Slippsins Akureyri þar sem við önnumst breytingar á vinnsludekki ásamt öðrum þjónustuverkum samtímis “ segir Páll.

Sigurgeir Harðarson vélstjóri og einn eiganda Frosta ehf segist spenntur fyrir komandi breytingum.

„Hönnunarferlið fyrir vinnsludekkið hefur gengið vel og erum við mjög ánægðir með útkomuna. Við höfum alltaf lagt áherslu á að stunda ábyrgar veiðar og hámarka verðmæti aflans og á því verður engin breyting“ segir Sigurgeir í spjalli við heimasíðuna.

 

Straumur skipa í Slippinn Akureyri

„Uppsjávarskipin eru okkar ljúfi vorboði“

Töluverð umferð skipa hefur verið til okkar í Slippnum Akureyri undanfarin misseri. Snemma í síðasta mánuði voru sjö skip af öllum stærðum og gerðum samtímis hjá Slippum í ýmiskonar þjónustu.

Uppsjávarskipið Jóna Eðvalds SF frá Hornafirði var í slipp í tæpar þrjár vikur þar sem skipið var heilmálað, hliðarskrúfa tekin upp, skipið öxuldregið og viðgerðir framkvæmdar á stýrisbúnaði.

Uppsjávarskip eru algeng sjón í Slippnum snemmsumars. Eftir loðnuvertíð og í mörgum tilvikum nokkra vikna kolmunnaúthald, eru vikurnar fram að makrílvertíð nýttar til viðhalds og endurbóta. Þessi tími er því oft fjörlegur hér í Slippnum og nauðsynlegt að nýta tímann til hins ítrasta. Í kjölfar Jónu Eðvalds komu svo Sigurður VE auk Bjarna Ólafssonar AK og er nú verið að vinna í báðum þessum skipum. Í kjölfar sjómannadagsins fara uppsjávarskipin svo að streyma eitt af öðru til makrílveiða.

Plötuskipti og heilmáling fóru fram á dýpkunarskipinu Pétri Mikla og gröfuprammanum Reyni sem eru í eigu Björgunar ehf. Viðgerðir voru unnar á skrúfu og stýrisbúnaði á Nøtte sem er þjónustubátur Laxa ehf.

Frystiskipið Sólberg ÓF sem er í eigu Ramma hf. var í flotkvínni þar sem botn var málaður sem og síður og frystilest. Breytingar voru gerðar á stýrisbúnaði sem er engin smásmíði ásamt öðrum minni viðhaldsverkefnum. Ragnar Aðalsteinsson útgerðarstjóri Ramma var ánægður með verkið.

„Það er óneitanlega mikill kostur að geta tekið svona stórt skip á þurrt nálægt heimabyggð og fengið alla almenna þjónustu. Þær breytingar sem voru gerðar tókust vel og kláraði Slippurinn verkið á tilsettum tíma sem var okkur mjög mikilvægt“.

Erlendu frystiskipin Polonus og Angunnguaq II hafa verið hjá Slippnum Akureyri í töluverðan tíma og er áætlað að þau haldi til veiða á næstu vikum.

Það má því segja að það sé líf og fjör á athafnasvæði Slippsins og er fyrirliggjandi að það haldi áfram á komandi mánuðum.