Naustatangi 2 (+354) 460 2900 info@slipp.is

Stór verkefni í skipaþjónustu Slippsins á Akureyri

Þrátt fyrir þá dæmalausu tíma sem við nú göngum í gegnum, hefur verkefnastaða Slippsins á
Akureyri verið viðunandi. Starfsmenn fyrirtækisins hafa unnið hörðum höndum í þeim verkefnum
sem við höfum tekið að okkur. Á meðal þessara verkefna eru stór verkefni fyrir erlendar útgerðir.

Snemma á þessu ári lauk stórri slipptöku á frystitogaranum Reval Viking fyrir eistneska
útgerðarfyrirtækið Reval Seafood. Þar var unnið í stálviðgerð á stefni skipsins auk þess sem nýir tog-gálgar voru smíðaðir þ.a. skipið getur nú dregið fjögur troll. Einnig var unnið að skrúfuviðgerðum, breytingum á rækjulínu á vinnsludekki auk þess sem síður og botn skipsins voru máluð.

Gunnar Tryggvason verkefnastjóri hjá Slippnum á Akureyri var ánægður með verkið.

“Þetta verkefni var krefjandi en tókst vel. Starfsmenn Slippsins stóðu sig gríðarlega vel og sú
fjölbreytta þjónusta sem við getum boðið gefur okkur ákveðið forskot á aðra og kemur þannig
viðskiptavinum okkar til góða. Samstarfið við útgerðina gekk einnig mjög vel sem er ekki síður
mikilvægt í svona verkefni”.

Auk þessa lauk nýlega stórri viðgerð á togaranum Melkart 5 sem er í eigu rússnesku útgerðarinnar
Murman Seafood. Skipið var almálað og öxuldregið auk þess sem aðalvél var tekin upp og breytingar á vinnsludekki skipsins framkvæmdar. Slippurinn Akureyri og Murman Seafood hafa átt gríðarlega gott samstarf á liðnum árum en auk viðhaldsverkefna á skipum félagsins afhenti Slippurinn vinnslubúnað í nýja fiskvinnslu fyrirtækisins í Rússlandi á s.l. ári.

Starfsmennirnir skipta mestu máli

Fyrirrennarar Slippsins á Akureyri fóru í gegnum mikinn ólgusjó áður en starfsemin var endurreist árið 2005 á grunni Slippstöðvarinnar og geta Akureyringar nú státað af stærsta og best búna slipp á landinu.

Sigríður Jónsdóttir, fjármálastjóri Slippsins á Akureyri, hefur séð tímana tvenna á þeim tíma sem hún hefur komið að starfseminni, en hún hóf störf hjá Slippstöðinni árið 1998 og störfuðu þá um 150 hjá því fyrirtæki. Hún hafði aðeins starfað hjá fyrirtækinu í stuttan tíma þegar það undir lok ársins 1999 sameinaðist Stálsmiðjunni og Kælismiðjunni frosti undir nafninu Stáltak, sem varð við sameininguna stærsta málmiðnaðarfyrirtæki landsins.

Hið sameinaða félag var með um tveggja milljarða veltu árið 2000 og tæplega 300 starfsmenn, en það leið ekki langur tími þar til fór að bera á erfiðum rekstri. Í september 2001 óskaði Stáltak eftir greiðslustöðvun en þá hafði starfsmönnum fækkað í 180 og nam tap á fyrsta árshelmingi 167 milljónum króna. Það var síðan í mars 2002 sem atkvæðismenn samþykktu nauðungasamninga.

„Þetta stóð bara yfir í um tvö ár. Þá var hver framkvæmdastjórinn á fætur öðrum sem rann hér í gegn. Síðan var þessu aftur sundrað og þá varð þetta aftur Slippstöðin og hvert fyrirtæki aftur starfandi fyrir sig,“ segir Sigríður.

Var þá rekstur Slippstöðvarinnar hafinn á ný undir eigin merkjum en það það átti ekki eftir að endast lengi og fór Slippstöðin í þrot árið 2005. „Þá vorum við búin að vera í verkefnum í kringum Kárahnjúkavirkjun sem fór dálítið illa með okkur,“ segir Sigríður. En upphaf erfiðleika Slippstöðvarinnar mátti rekja til ýmissa fjárhagslegra vandamála sem fyrirtækið lenti í þegar það vann við samsetningu á þrýstipípum í aðfallsgöngum Kárahnjúkavirkjunar. Slippstöðin var undirverktaki hins þýska fyrirtækis DSB Stalbau sem gerði kröfu í þrotabú Slippstöðvarinnar, þó að hún hafi ekki verið tekin fyrir þegar búið var gert upp.

Mikið verk að endurreisa starfsemina

„Í kjölfarið var fyrirtækið endurreist af einstaklingum og fyrirtækjum sem voru tengd Slippstöðinni og þá varð til Slippurinn Akureyri útskýrir fjármálastjórinn. Það fyrirtæki einbeitti sér að kjarnastarfsemi Slippstöðvarinnar sem fólst í viðhaldi og endurbótum á skipum og bátum og síðan ýmissi vinnu fyrir stóriðjur, virkjanir og fleiri landverkefni. „Þá var reynt að hafa þetta eins lítið og hægt var, byrjuðum um 40 starfsmenn sem allir höfðu unnið hjá Slippstöðinni og reyndum að vera eins fá og við mögulega gátum. Síðan hefur þetta bara vaxið og við erum komin í sama fjölda og þegar ég byrjaði eða í kringum 150.“

Spurð hvort ekki hafi verið mikið verk að endurreis starfsemina í kjölfar falls Slippstöðvarinnar, svarar Sigríður því játandi. „Tveir fyrrverandi starfsmenn Slippstöðvarinnar sem höfðu mikla reynslu reistu þetta við ásamt fyrirtækjum á svæðinu og fengu í lið með sér vana og góða starfsmenn sem allir höfðu starfað í Slippstöðinni áður og sumir hverjir jafnvel alla sína starfsævi.

Mörg verkefni að undanförnu

Hún segir það hafa skipt Akureyringa miklu máli að starfseminni hafi verið komið á laggirnar á nýjan leik. „Þetta eru mest Akureyringar [sem starfa hjá fyrirtækinu] og margir sem hafa átt mjög langa starfsævi hér, þetta hafa verið mjög tryggir starfsmenn í gegnum tíðian. Þó það sé orðin einhver breyting á starfsaldri, og ég finn að það er að verða ákveðin kynslóðaskipti.“ Eðli verkefnanna hafa einnig breyst með tímanum að sögn Sigríðar. „Þetta voru mun fleiri minni bátar, meðal annars fleiri trébátar sem komu á vorin í klössun, fastir viðskiptavinir. Nú eru þetta fleiri plastbátar að sinna þessum veiðum og til okkar koma þá stærri skip og reyndar hvalaskoðunarbátarnir líka. Einnig erum við að hanna, smíða og setja upp vinnsludekk fyrir útgerðarfyrirtæki úti um allan heim, það er orðinn stór hluti af Slippnum og hefur vöxturinn verið mjög mikill á undaförnum árum. Síðan var DNG keypt árið 2007 og framleiðum við nú færavindur undir merkjum þeirra. “

Mörg verkefni er snúa að því að koma fyrir vinnslulínum í skipum hafa verið undanfarið hjá Slippnum Akureyri og hefur fyrirtækið meðal annars þjónustað ný skip Bergs-Hugins, dótturfélags Síldarvinnslunnar, Vestmannaey VE og Bergey VE. Auk þess var unnið að millidekki Harðbaks EA, nýs skips Útgerðarfélags Akureyringa. Það eru þó ekki bara innlend skip sem sækja þjónustu Slippsins að sögn Sigríðar sem bendir á að einnigkoma verkefni frá útlöndum, meðal annars frá Grænlandi, Rússlandi, Kanada og Þýskalandi.

„Þetta fyrirtæki hefur alltaf gengið vel, að undanteknu einu eða tveimur árum. […] Þetta er stærsti og best búni slippurinn á landinu og sú þjónusta sem við veitum er fyrsta flokks,“ segir hún.

Fjölga þurfi iðnmenntuðum á vinnumarkaði

Sigríður segir aðalmáli skipta að hafa trygga og góða starfsmenn með mikla reynslu og að fyrirtækið hafi verið lánsamt að búa yfir slíkum einstaklingum. Hins vegar er viðvarandi vandi að skortur sé á iðnmenntuðu fólki í landinu. „Það hefur verið þannig ástandið að það er sjaldgæft að það komi iðnmenntaður einstaklingur til þess að biðja um vinnu. Það er miklu frekar þannig að það þurfi að leita að þeim, þannig að það er mikilvægt að halda í góða starfsmenn.“

Þá hefur Slippurinn unnið markvisst að því að fjölga iðnmenntuðu fólki, bætir hún við. „Við erum með nema á hverju ári hérna af véltæknisviði Verkmenntaskólans á Akureyri. Hjálpum þannig til við það að fjölga þeim. Við erum alltaf með þó nokkuð marga nema, milli tíu og tuttugu. Greiðum fyrir þá sveinsprófið og með þessu getum við styrkt stöðu okkar með því að fá fleiri iðnaðarmenn og um leið sveitarfélagið og Eyjafjarðarsvæðið. Það skiptir okkur miklu máli að hafa öfluga iðnaðarmenn. “

Hvetur fjármálastjórinn fleiri fyrirtæki til þess að gera sitt ýtrasta til þess að fjölga fólki á vinnumarkaði með iðnmenntun, en segir að meira þurfi til. „Það er alveg greinilegt að það þarf að fara að gera eitthvað til þess að styðja við iðnmenntun. Það er alltaf verið að ræða um það en það þarf virkilega að fara að grípa til aðgerða sem fjölga iðnmenntuðu fólki.“

Greinin birtist fyrst í blaði 200 mílna og á vef mbl.is

Sjálfvirkt þvottakerfi hjá Arnarlax

Slippurinn á Akureyri hefur sett upp sjálfvirkt þvottakerfi hjá Arnarlaxi á Bíldudal sem dregur verulega úr kostnaði vegna þrifa. Fyrir dyrum stendur að setja upp samskonar kerfi í nýrri landvinnslu Samherja á Dalvík.

Magnús Blöndal, markaðsstjóri hjá Slippnum, segir að fram hafi komið á fundum fyrirtækisins með fiskvinnslufyrirtækjum um allt land að þrifakostnaður væri allverulegur. Í framhaldinu leitaði Slippurinn lausna og fann hana í þvottakerfum frá sænska framleiðandanum Lagafors. Slippurinn er þjónustuaðili Lagafors og annast uppsetningu búnaðarins, lagnavinnu og viðhald.

„Það er miklar kröfur um gæði, vinnsluhraða og rekjanleika í fiskvinnslum hér á Íslandi og hefur þróunin á vinnslubúnaði verið mikil á undaförnum árum. Sjálfvirkt þvottakerfi sparar vinnutíma, minnkar notkun á hreinsiefnum og er hægt að tengja við rekjanleikakerfi svo eftirlitið með þrifunum verður meira,“ segir Magnús.
Samlegðaráhrif

„Næsta verkefni hjá okkur er að setja upp þvottakerfi fyrir öll færibönd í nýju fiskvinnslu Samherja á Dalvík og eru þau yfir 200 talsins. Það er skolun á meðan vinnslan er í gangi, lágþrýstiþvottur á 40 börum, sápuþvottur og sótthreinsun og verður þvottakerfið eitt það stærsta og fullkomnasta sem hefur verið sett í bolfiskvinnslu í heiminum” segir Magnús.
Arnarlax hefur verið með þvottakerfið í tvo mánuði og er reynslan góð. Fyrirtækið er að stækka vinnslu sína og hyggst setja þvottakerfið á öll færibönd í nýju vinnslunni.
Gjörbreytti þrifunum

„Þetta gjörbreytti þrifunum hjá okkur. Við erum að vinna á bilinu 80-95 tonn af fiski á dag. Yfir daginn hef ég vatn á kerfinu til að viðhalda léttri skolun á færiböndunum. Strax þegar vinnslu lýkur keyri ég 40 bara skolun og við það fara öll óhreinindi af færiböndunum. Í framhaldinu sér kerfið um sápuþvott. Þegar sápa hefur farið á öll böndin líða fimmtán mínútur áður en skolun hefst. Ég get sjálfur stillt þann tíma sem sápan liggur á færiböndunum. Kerfið spúlar svo sápunni af með 40 bara þrýstingi og í lokin sótthreinsar kerfið færiböndin með þar til gerðum efnum,“ segir Jón Ragnar Gunnarsson, tæknistjóri hjá Arnarlaxi.

Mannshöndin kemur þannig hvergi nálægt þessum þrifum en starfsmenn Arnarlax annast þrif á gólfum og sótthreinsa tæki. Hægt er að stýra því hve langan tíma hvert ferli í þrifunum tekur. Þannig má til dæmis lengja lágþrýstiþvottinn á færiböndunum séu þau óþrifalegri en vant er.
„Kerfið sparar okkur þrifatíma sem samsvarar einum starfsmanni. Áður vann einn starfsmaður eingöngu við það að smúla öll færiböndin í vinnslunni. Þetta sparar okkur launakostnað auk þess hefur sápunotkun í húsinu minnkað um að minnsta 10-15 prósent. Hjá Slippnum á Akureyri starfa miklir fagmenn, jafnt í allri uppsetningu og öllu sem þessu kerfi viðkemur,“ segir Jón Ragnar.

Hann segir að nú sé stefnan hjá fyrirtækinu að lengja vinnudaginn í 15-16 tíma á dag í stað 12 tíma áður. Afköstin fari í hátt í 140 tonn á dag. Þetta dragi mikið úr þeim tíma sem eftir er sólarhrings til þrifa. Nýja þvottakerfið geri þrif á færiböndum sjálfvirk og á meðan geta starfsmenn einbeitt sér að þrifum á gólfum og tækjum.
„Þessi auknu umsvif kalla á fleiri þvottakerfi og við höfum þegar lagt inn pöntun fyrir nýju kerfi, “segir Jón Ragnar.
Fréttin birtist fyrst í fiskifréttum 23 september.

Kaldbakur EA 1 fer vel af stað með nýtt vinnsludekk

Kaldbakur EA fór í sína fyrstu veiðiferð snemma í september mánuði að aflokinni uppsetningu á nýjum og fullkomnum vinnslubúnaði frá Slippnum Akureyri. 
Búnaðurinn í vinnslunni hefur reynst vel að sögn Angantýs Arnars, annars tveggja skipstjóra á Kaldbaki EA.

“Við erum mjög ánægðir með nýja vinnsludekkið, gæði aflans eru mikil og vinnslan gengur hratt og örugglega fyrir sig. Sniglakörin koma vel út, bæði hvað varðar blóðgun og kælingu og engir hnökrar hafa verið á lestarkerfinu, það er mikill munur að geta karað fiskinn upp á vinnsludekkinu.
Þau litlu vandamál sem hafa komið upp höfum við leyst í sameiningu með Slippnum og hefur eftirfylgni þeirra með búnaðinum verið til fyrirmyndar” segir Angantýr Arnar.

Ólafur Ormsson sviðsstjóri hjá Slippnum segir það afar ánægjulegt að Kalbakur fari vel af stað.

“Við hönnun á vinnsludekkinu var lögð áhersla á að gera alla vinnsluna um borð hagkvæma, auðvelda í þrifum og þannig tryggja framúrskarandi aflameðferð.
Áreiðanleiki alls búnaðarins skiptir einnig gríðarlegu máli og er vandlega gætt að honum. Samstarfið með Samherja í þessu verkefni hefur gengið mjög vel og er ánægjulegt að sjá hversu vel vinnsludekkið hefur verið að reynast ” segir Ólafur.

 


Gæðavottun
ISO 9001:2015