Naustatangi 2 (+354) 460 2900 info@slipp.is

Harðbakur EA fer vel af stað

Harðbakur EA 3 nýi togari Útgerðarfélags Akureyringa hefur komið vel út en skipið fór í sína fyrstu veiðiferð um miðjan maí og landaði fullfermi í fiskvinnslu félagsins. Slippurinn Akureyri annaðist hönnun, smíði og uppsetningu á nýju vinnsludekki í skipinu.

„Helstu áherslurnar voru að hámarka gæði og meðferð afla og var það margþætt verkefni. Blæðing, þvottur og kæling á fiski voru lykilatriði í ferlinu en einnig var lögð áhersla á að hafa vinnsludekkið einfalt og skilvirkt. Þær nýjungar sem snúa að vinnslubúnaði í skipinu voru meðal annars reimalyftukör sem er ný og einfaldari útfærsla á lyftukörum og fiskilyfta sem var sett til þess að lágmarka fallhæð frá vinnsludekkinu og niður í lest. Hönnun á vinnsludekkinu var unnin í góðu samstarfi við útgerðarsvið Samherja og eru báðir aðilar ánægðir með afraksturinn“ segir Bergþór Ævarsson sviðsstjóri framleiðslu hjá Slippnum Akureyri í viðtali við heimasíðuna.

Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri Samherja er ánægður með vinnsludekkið í Harðbak.

„Hráefnisgæði af nýja millidekkinu eru eins og best verður á kosið. Við hönnunina var notast við nýjar lausnir í bland við aðrar þekktar lausnir úr fyrri verkefnum. Það er ljóst að vel tókst til. Samstarfið við Slippinn Akureyri gekk vel og hefur þjónusta og eftirfylgni verið til fyrirmyndar“.

Slippurinn Akureyri hlýtur styrk frá rannsóknarsjóði AVS

Slippurinn Akureyri hlaut nýverið styrk frá rannsóknarsjóði AVS út á verkefnið Sjávarlón. Um er að ræða tveggja ára verkefni þar sem ætlunin er að þróa búnað sem auka á gæði og einsleitni hráefnis úr blæðingar- og þvottaferli bolfisks. Markmiðið er að ferlinu sé stýrt með tilliti til ytri aðstæðna og lágmarki þá bæði holdroða og los. Í verkefninu er þróaður hug- og vélbúnaður til að besta blæðingu bolfisks út frá hitastigi, tíma og flæðibreytum. Verkefnið er samstarfsverkefni Slippsins, Matís, Háskólans á Akureyri og Samherja.


Ásþór Sigurgeirsson sem starfar við hönnun og þróun hjá Slippnum Akureyri segir að fiskimiðin í Norður Atlantshafinu séu einhver þau gjöfulustu í heimi en þau séu jafnframt vígvöllur heitra og kaldra hafstrauma.


„Það eru miklar breytingar að verða í vinnslubúnaði fiskiskipa og okkur þykir full ástæða til að taka þær miklu árstíða- og svæðisbundnu hitastigsbreytur sem eru á Íslandsmiðum á ársgrundvelli inn í vinnsluferlana. Íslenskir fiskverkendur eru að senda fullunnar ferskar afurðir úr landi allan ársins hring og við viljum leggja okkar af mörkum til að tryggja sem jöfnust gæði allt árið um kring. Með Sjávarlóni ætlum við okkur að koma böndum á þessar öfgar inni á vinnsluþilfarinu og láta ekki breytilegt sjávarhitastig í þvotti koma niður á gæðum. Markmiðið með stýrðum aðstæðum er að skila nær jafngóðu hráefni allt árið um kring hvort heldur sem fiskur er veiddur og unninn í ísköldum sjó eða í hlýjum sjó þegar sókninni er beint þangað“.


Hann segir að nálægðin við útibú Matís og Háskólann á Akureyri ásamt útgerðum á svæðinu auki aðgengi fyrirtækja úti á landi að góðum samstarfsaðilum.


„Þannig má segja að sérfræðingar Matís, Háskólans á Akureyri auk gæðastarfsfólks Samherja beri verkefnið uppi með okkur“.

Stöðugt rennerí hjá DNG

Kristján Björn Garðarsson, rekstrarstjóri DNG dótturfélags Slippsins á Akureyri, segir alltaf mikið um að vera á þessum árstíma enda margir að undirbúa sumarvertíðina og ekki síst hefja strandveiðar. Fyrirtækið framleiðir færavindur og margskonar rafeinda- og tæknibúnað. „Þetta er líka ákveðinn hápunktur í viðgerðum, menn að gera sig tilbúna fyrir sumarvertíð. Þegar kemur að vindunum er þetta býsna svipað og síðastliðin ár, kannski eilítið líðlegra á þessum tíma. Þegar strandveiðarnar eru að byrja og svo makríllinn í kjölfarið, það koma miklir toppar í þetta.“

Hann segir að þó það hafi ávallt verið gert ráð fyrir að yrði af vertíðinni þá hafi komið aðeins á óvart að tímabilið hafi gefið jafn mörg verkefni og raun ber vitni þar sem virðist hafa hægt á víða og að verð á fiskmörkuðum er heldur lágt. „Við höfum ekki tekið eftir samdrætti í þessu miðað við þennan árstíma.“ Kristján treystir sér ekki til þess að giska á hversu margir bátar nýta þjónustu DNG á ári. Spurður hvort um sé að ræða nokkra tugi báta svarar hann: „Nei, það eru miklu fleiri, þetta er standandi. Það er sumir sem koma á haustin og á veturnar þegar þeir eru ekki í útgerð og aðrir sem koma í aðdraganda vertíðarinnar og skella þeim til okkar í yfirhalningu og eftirlit eða viðgerðir. Þetta er gríðarlegur fjöldi hérna á Íslandi, það eru mörg hundruð vindur sem eru í gangi og ekki allt bundið við strandveiðar.“

DNG þjónustar ekki bara íslenskan markað og hefur staðið í talsverðri sölu og þjónustu við útgerðaraðila víða um heim, að sögn Kristjáns. „Þetta eru Norðmenn, Írar, Skotar, Færeyjingar mikið og Grænlendingar. Nýfundnaland, báðar strendur Bandaríkjanna að hluta. Þetta er um allt, einu sinni var Alaska markaðssvæði og svo er þetta um hvippinn og hvappinn. Við erum alveg niður í Nýja Sjálandi og Ástralíu.“

Fréttin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 23 maí.

Stór verkefni í skipaþjónustu Slippsins á Akureyri

Þrátt fyrir þá dæmalausu tíma sem við nú göngum í gegnum, hefur verkefnastaða Slippsins á
Akureyri verið viðunandi. Starfsmenn fyrirtækisins hafa unnið hörðum höndum í þeim verkefnum
sem við höfum tekið að okkur. Á meðal þessara verkefna eru stór verkefni fyrir erlendar útgerðir.

Snemma á þessu ári lauk stórri slipptöku á frystitogaranum Reval Viking fyrir eistneska
útgerðarfyrirtækið Reval Seafood. Þar var unnið í stálviðgerð á stefni skipsins auk þess sem nýir tog-gálgar voru smíðaðir þ.a. skipið getur nú dregið fjögur troll. Einnig var unnið að skrúfuviðgerðum, breytingum á rækjulínu á vinnsludekki auk þess sem síður og botn skipsins voru máluð.

Gunnar Tryggvason verkefnastjóri hjá Slippnum á Akureyri var ánægður með verkið.

“Þetta verkefni var krefjandi en tókst vel. Starfsmenn Slippsins stóðu sig gríðarlega vel og sú
fjölbreytta þjónusta sem við getum boðið gefur okkur ákveðið forskot á aðra og kemur þannig
viðskiptavinum okkar til góða. Samstarfið við útgerðina gekk einnig mjög vel sem er ekki síður
mikilvægt í svona verkefni”.

Auk þessa lauk nýlega stórri viðgerð á togaranum Melkart 5 sem er í eigu rússnesku útgerðarinnar
Murman Seafood. Skipið var almálað og öxuldregið auk þess sem aðalvél var tekin upp og breytingar á vinnsludekki skipsins framkvæmdar. Slippurinn Akureyri og Murman Seafood hafa átt gríðarlega gott samstarf á liðnum árum en auk viðhaldsverkefna á skipum félagsins afhenti Slippurinn vinnslubúnað í nýja fiskvinnslu fyrirtækisins í Rússlandi á s.l. ári.

Starfsmennirnir skipta mestu máli

Fyrirrennarar Slippsins á Akureyri fóru í gegnum mikinn ólgusjó áður en starfsemin var endurreist árið 2005 á grunni Slippstöðvarinnar og geta Akureyringar nú státað af stærsta og best búna slipp á landinu.

Sigríður Jónsdóttir, fjármálastjóri Slippsins á Akureyri, hefur séð tímana tvenna á þeim tíma sem hún hefur komið að starfseminni, en hún hóf störf hjá Slippstöðinni árið 1998 og störfuðu þá um 150 hjá því fyrirtæki. Hún hafði aðeins starfað hjá fyrirtækinu í stuttan tíma þegar það undir lok ársins 1999 sameinaðist Stálsmiðjunni og Kælismiðjunni frosti undir nafninu Stáltak, sem varð við sameininguna stærsta málmiðnaðarfyrirtæki landsins.

Hið sameinaða félag var með um tveggja milljarða veltu árið 2000 og tæplega 300 starfsmenn, en það leið ekki langur tími þar til fór að bera á erfiðum rekstri. Í september 2001 óskaði Stáltak eftir greiðslustöðvun en þá hafði starfsmönnum fækkað í 180 og nam tap á fyrsta árshelmingi 167 milljónum króna. Það var síðan í mars 2002 sem atkvæðismenn samþykktu nauðungasamninga.

„Þetta stóð bara yfir í um tvö ár. Þá var hver framkvæmdastjórinn á fætur öðrum sem rann hér í gegn. Síðan var þessu aftur sundrað og þá varð þetta aftur Slippstöðin og hvert fyrirtæki aftur starfandi fyrir sig,“ segir Sigríður.

Var þá rekstur Slippstöðvarinnar hafinn á ný undir eigin merkjum en það það átti ekki eftir að endast lengi og fór Slippstöðin í þrot árið 2005. „Þá vorum við búin að vera í verkefnum í kringum Kárahnjúkavirkjun sem fór dálítið illa með okkur,“ segir Sigríður. En upphaf erfiðleika Slippstöðvarinnar mátti rekja til ýmissa fjárhagslegra vandamála sem fyrirtækið lenti í þegar það vann við samsetningu á þrýstipípum í aðfallsgöngum Kárahnjúkavirkjunar. Slippstöðin var undirverktaki hins þýska fyrirtækis DSB Stalbau sem gerði kröfu í þrotabú Slippstöðvarinnar, þó að hún hafi ekki verið tekin fyrir þegar búið var gert upp.

Mikið verk að endurreisa starfsemina

„Í kjölfarið var fyrirtækið endurreist af einstaklingum og fyrirtækjum sem voru tengd Slippstöðinni og þá varð til Slippurinn Akureyri útskýrir fjármálastjórinn. Það fyrirtæki einbeitti sér að kjarnastarfsemi Slippstöðvarinnar sem fólst í viðhaldi og endurbótum á skipum og bátum og síðan ýmissi vinnu fyrir stóriðjur, virkjanir og fleiri landverkefni. „Þá var reynt að hafa þetta eins lítið og hægt var, byrjuðum um 40 starfsmenn sem allir höfðu unnið hjá Slippstöðinni og reyndum að vera eins fá og við mögulega gátum. Síðan hefur þetta bara vaxið og við erum komin í sama fjölda og þegar ég byrjaði eða í kringum 150.“

Spurð hvort ekki hafi verið mikið verk að endurreis starfsemina í kjölfar falls Slippstöðvarinnar, svarar Sigríður því játandi. „Tveir fyrrverandi starfsmenn Slippstöðvarinnar sem höfðu mikla reynslu reistu þetta við ásamt fyrirtækjum á svæðinu og fengu í lið með sér vana og góða starfsmenn sem allir höfðu starfað í Slippstöðinni áður og sumir hverjir jafnvel alla sína starfsævi.

Mörg verkefni að undanförnu

Hún segir það hafa skipt Akureyringa miklu máli að starfseminni hafi verið komið á laggirnar á nýjan leik. „Þetta eru mest Akureyringar [sem starfa hjá fyrirtækinu] og margir sem hafa átt mjög langa starfsævi hér, þetta hafa verið mjög tryggir starfsmenn í gegnum tíðian. Þó það sé orðin einhver breyting á starfsaldri, og ég finn að það er að verða ákveðin kynslóðaskipti.“ Eðli verkefnanna hafa einnig breyst með tímanum að sögn Sigríðar. „Þetta voru mun fleiri minni bátar, meðal annars fleiri trébátar sem komu á vorin í klössun, fastir viðskiptavinir. Nú eru þetta fleiri plastbátar að sinna þessum veiðum og til okkar koma þá stærri skip og reyndar hvalaskoðunarbátarnir líka. Einnig erum við að hanna, smíða og setja upp vinnsludekk fyrir útgerðarfyrirtæki úti um allan heim, það er orðinn stór hluti af Slippnum og hefur vöxturinn verið mjög mikill á undaförnum árum. Síðan var DNG keypt árið 2007 og framleiðum við nú færavindur undir merkjum þeirra. “

Mörg verkefni er snúa að því að koma fyrir vinnslulínum í skipum hafa verið undanfarið hjá Slippnum Akureyri og hefur fyrirtækið meðal annars þjónustað ný skip Bergs-Hugins, dótturfélags Síldarvinnslunnar, Vestmannaey VE og Bergey VE. Auk þess var unnið að millidekki Harðbaks EA, nýs skips Útgerðarfélags Akureyringa. Það eru þó ekki bara innlend skip sem sækja þjónustu Slippsins að sögn Sigríðar sem bendir á að einnigkoma verkefni frá útlöndum, meðal annars frá Grænlandi, Rússlandi, Kanada og Þýskalandi.

„Þetta fyrirtæki hefur alltaf gengið vel, að undanteknu einu eða tveimur árum. […] Þetta er stærsti og best búni slippurinn á landinu og sú þjónusta sem við veitum er fyrsta flokks,“ segir hún.

Fjölga þurfi iðnmenntuðum á vinnumarkaði

Sigríður segir aðalmáli skipta að hafa trygga og góða starfsmenn með mikla reynslu og að fyrirtækið hafi verið lánsamt að búa yfir slíkum einstaklingum. Hins vegar er viðvarandi vandi að skortur sé á iðnmenntuðu fólki í landinu. „Það hefur verið þannig ástandið að það er sjaldgæft að það komi iðnmenntaður einstaklingur til þess að biðja um vinnu. Það er miklu frekar þannig að það þurfi að leita að þeim, þannig að það er mikilvægt að halda í góða starfsmenn.“

Þá hefur Slippurinn unnið markvisst að því að fjölga iðnmenntuðu fólki, bætir hún við. „Við erum með nema á hverju ári hérna af véltæknisviði Verkmenntaskólans á Akureyri. Hjálpum þannig til við það að fjölga þeim. Við erum alltaf með þó nokkuð marga nema, milli tíu og tuttugu. Greiðum fyrir þá sveinsprófið og með þessu getum við styrkt stöðu okkar með því að fá fleiri iðnaðarmenn og um leið sveitarfélagið og Eyjafjarðarsvæðið. Það skiptir okkur miklu máli að hafa öfluga iðnaðarmenn. “

Hvetur fjármálastjórinn fleiri fyrirtæki til þess að gera sitt ýtrasta til þess að fjölga fólki á vinnumarkaði með iðnmenntun, en segir að meira þurfi til. „Það er alveg greinilegt að það þarf að fara að gera eitthvað til þess að styðja við iðnmenntun. Það er alltaf verið að ræða um það en það þarf virkilega að fara að grípa til aðgerða sem fjölga iðnmenntuðu fólki.“

Greinin birtist fyrst í blaði 200 mílna og á vef mbl.is


Gæðavottun
ISO 9001:2015