Naustatangi 2 (+354) 460 2900 info@slipp.is

Sjálfvirkt þvottakerfi hjá Arnarlax

Slippurinn á Akureyri hefur sett upp sjálfvirkt þvottakerfi hjá Arnarlaxi á Bíldudal sem dregur verulega úr kostnaði vegna þrifa. Fyrir dyrum stendur að setja upp samskonar kerfi í nýrri landvinnslu Samherja á Dalvík.

Magnús Blöndal, markaðsstjóri hjá Slippnum, segir að fram hafi komið á fundum fyrirtækisins með fiskvinnslufyrirtækjum um allt land að þrifakostnaður væri allverulegur. Í framhaldinu leitaði Slippurinn lausna og fann hana í þvottakerfum frá sænska framleiðandanum Lagafors. Slippurinn er þjónustuaðili Lagafors og annast uppsetningu búnaðarins, lagnavinnu og viðhald.

„Það er miklar kröfur um gæði, vinnsluhraða og rekjanleika í fiskvinnslum hér á Íslandi og hefur þróunin á vinnslubúnaði verið mikil á undaförnum árum. Sjálfvirkt þvottakerfi sparar vinnutíma, minnkar notkun á hreinsiefnum og er hægt að tengja við rekjanleikakerfi svo eftirlitið með þrifunum verður meira,“ segir Magnús.
Samlegðaráhrif

„Næsta verkefni hjá okkur er að setja upp þvottakerfi fyrir öll færibönd í nýju fiskvinnslu Samherja á Dalvík og eru þau yfir 200 talsins. Það er skolun á meðan vinnslan er í gangi, lágþrýstiþvottur á 40 börum, sápuþvottur og sótthreinsun og verður þvottakerfið eitt það stærsta og fullkomnasta sem hefur verið sett í bolfiskvinnslu í heiminum” segir Magnús.
Arnarlax hefur verið með þvottakerfið í tvo mánuði og er reynslan góð. Fyrirtækið er að stækka vinnslu sína og hyggst setja þvottakerfið á öll færibönd í nýju vinnslunni.
Gjörbreytti þrifunum

„Þetta gjörbreytti þrifunum hjá okkur. Við erum að vinna á bilinu 80-95 tonn af fiski á dag. Yfir daginn hef ég vatn á kerfinu til að viðhalda léttri skolun á færiböndunum. Strax þegar vinnslu lýkur keyri ég 40 bara skolun og við það fara öll óhreinindi af færiböndunum. Í framhaldinu sér kerfið um sápuþvott. Þegar sápa hefur farið á öll böndin líða fimmtán mínútur áður en skolun hefst. Ég get sjálfur stillt þann tíma sem sápan liggur á færiböndunum. Kerfið spúlar svo sápunni af með 40 bara þrýstingi og í lokin sótthreinsar kerfið færiböndin með þar til gerðum efnum,“ segir Jón Ragnar Gunnarsson, tæknistjóri hjá Arnarlaxi.

Mannshöndin kemur þannig hvergi nálægt þessum þrifum en starfsmenn Arnarlax annast þrif á gólfum og sótthreinsa tæki. Hægt er að stýra því hve langan tíma hvert ferli í þrifunum tekur. Þannig má til dæmis lengja lágþrýstiþvottinn á færiböndunum séu þau óþrifalegri en vant er.
„Kerfið sparar okkur þrifatíma sem samsvarar einum starfsmanni. Áður vann einn starfsmaður eingöngu við það að smúla öll færiböndin í vinnslunni. Þetta sparar okkur launakostnað auk þess hefur sápunotkun í húsinu minnkað um að minnsta 10-15 prósent. Hjá Slippnum á Akureyri starfa miklir fagmenn, jafnt í allri uppsetningu og öllu sem þessu kerfi viðkemur,“ segir Jón Ragnar.

Hann segir að nú sé stefnan hjá fyrirtækinu að lengja vinnudaginn í 15-16 tíma á dag í stað 12 tíma áður. Afköstin fari í hátt í 140 tonn á dag. Þetta dragi mikið úr þeim tíma sem eftir er sólarhrings til þrifa. Nýja þvottakerfið geri þrif á færiböndum sjálfvirk og á meðan geta starfsmenn einbeitt sér að þrifum á gólfum og tækjum.
„Þessi auknu umsvif kalla á fleiri þvottakerfi og við höfum þegar lagt inn pöntun fyrir nýju kerfi, “segir Jón Ragnar.
Fréttin birtist fyrst í fiskifréttum 23 september.

Kaldbakur EA 1 fer vel af stað með nýtt vinnsludekk

Kaldbakur EA fór í sína fyrstu veiðiferð snemma í september mánuði að aflokinni uppsetningu á nýjum og fullkomnum vinnslubúnaði frá Slippnum Akureyri. 
Búnaðurinn í vinnslunni hefur reynst vel að sögn Angantýs Arnars, annars tveggja skipstjóra á Kaldbaki EA.

“Við erum mjög ánægðir með nýja vinnsludekkið, gæði aflans eru mikil og vinnslan gengur hratt og örugglega fyrir sig. Sniglakörin koma vel út, bæði hvað varðar blóðgun og kælingu og engir hnökrar hafa verið á lestarkerfinu, það er mikill munur að geta karað fiskinn upp á vinnsludekkinu.
Þau litlu vandamál sem hafa komið upp höfum við leyst í sameiningu með Slippnum og hefur eftirfylgni þeirra með búnaðinum verið til fyrirmyndar” segir Angantýr Arnar.

Ólafur Ormsson sviðsstjóri hjá Slippnum segir það afar ánægjulegt að Kalbakur fari vel af stað.

“Við hönnun á vinnsludekkinu var lögð áhersla á að gera alla vinnsluna um borð hagkvæma, auðvelda í þrifum og þannig tryggja framúrskarandi aflameðferð.
Áreiðanleiki alls búnaðarins skiptir einnig gríðarlegu máli og er vandlega gætt að honum. Samstarfið með Samherja í þessu verkefni hefur gengið mjög vel og er ánægjulegt að sjá hversu vel vinnsludekkið hefur verið að reynast ” segir Ólafur.

 

Traffík á athafnasvæði Slippsins á Akureyri

Makríl- og rækjuskipið Svend C, sem er í eigu grænlensku útgerðarinnar Sikuaq Trawl Nuuk, hefur verið í flotkví Slippsins á Akureyri frá því um miðjan júnímánuð en skipið hélt aftur til veiða í byrjun þessarar viku. Svend C var smíðað árið 2016 og er 83,5 metrar að lengd og 17 metrar að breidd og er eitt stærsta skip sem hefur verið tekið upp hér á Íslandi.

„Verkefnin í Svend C voru fjölbreytt en þar ber helst að nefna breytingar á rækju- og uppsjávarlínu á vinnsludekkinu sem unnar voru í samstarfi við danska fyrirtækið Carsoe, tengingar á nýjum andveltibúnaði, lagfæringar á RSW kerfi og endurbætur á stýri ásamt öðrum minniháttar viðhaldsverkum. Það er mikill styrkleiki fyrir Slippinn á Akureyri að geta boðið upp á fjölbreytta þjónustu og að geta tekið að sér verkefni af þessari stærðargráðu. Á undaförnum árum hafa sífellt fleiri grænlenskar útgerðir komið með skip til okkar sem er mjög jákvætt.” segir Gunnar Tryggvason verkefnastjóri Slippsins á Akureyri í viðtali við heimasíðuna.

Mikil traffík hefur verið á athafnasvæði Slippsins á Akureyri undafarnar vikur en uppsjávarskipið Venus sem er í eigu HB Granda hefur nýlega lokið slipp, þar var unnið í minniháttar viðgerðum á stýri og botn og síður skipsins málaðar. Í stóru dráttabraut Slippsins var línuskipið Örvar SH en skipið var öxuldregið, botn þess málaður ásamt síðum, auk upptektar á síðulokum. Áætlað er að skipið haldið aftur til veiða um helgina.

Drangey SK og Gullver NS eru nýlega komin og verða í slipp fram í næstu viku.


Gæðavottun
ISO 9001:2015